VR ákvað nýlega að hætta með jafnlaunavottun á sínum vegum. Í tilkynningu á heimasíðu stéttarfélagsins kemur fram að ætlunin hafi alltaf verið að hætta með jafnlaunavottun þegar opinbert ferli við vottun færi af stað samkvæmt jafnlaunastaðlinum.
VR hefur verið með jafnlaunavottun síðan staðlaráð Íslands gaf út jafnlaunastaðal í desember 2012, en þá taldi félagið nauðsynlegt að bregðast skjótt við og fékk vottunarfyrirtækið BSI á Íslandi (British Standards Institution) til þess.
Hátt í 6.000 manns hafa farið í gegnum jafnlaunavottun VR síðan þá, meðal þeirra er tölvuleikjaframleiðandinn CCP sem fékk jafnlaunavottun VR 13. janúar síðastliðinn og var meðal síðustu fyrirtækjanna til að fá vottunina, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.