„Ég horfði á manneskju deyja“

Silfra á Þingvöllum
Silfra á Þingvöllum mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn þeirra fjölmörgu sem voru við köfun í Silfru á sunnudag lýsir því á Facebook hvernig hann hafi horft á manneskju deyja þennan dag. 

Breska dagblaðið Daily Mail birtir færslu mannsins, Scot Hacker, tölvunarfræðings frá Kaliforníu, sem var í sinni fyrstu köfun í þurrbúningi í Silfru á Þingvöllum þennan dag.

Hacker skrifar á Facebook að þegar þau voru að reyna að komast upp úr vatninu í stífum búningum, með 75 pund (34 kg) af búnaði  á sér hafi þau séð miðaldra manneskju liggjandi á bakkanum þar sem reynt var að hnoða í hana lífi.

Að hans sögn voru þau beðin um að koma sér í burtu og að erfitt hefði verið að fá upplýsingar um hvað hefði komið fyrir. Þetta hefði verið ömurlegur endir á góðum degi. Þegar þau voru að keyra að Kerinu hefði hann allt í einu fundið sig knúinn til þess að setja plötu Bowie, Blackstar, á hæstu stillingu og grátið.

Færsla Hackers er opin á Facebook en eftir þetta hefur hann sett inn fjölmargar myndir frá Þingvöllum og köfuninni í Silfru.

Dauðsfallið í Silfru um helgina hefur vakið umræðu um köfun á Þingvöllum. Níu alvarleg slys, þar af fjögur dauðsföll, hafa orðið á svæðinu á síðustu sjö árum. Samkvæmt fréttatilkynningu frá þjóðgarðinum í vikunni hafa mörg minni atvik einnig komið upp án þess að vera tilkynnt.

Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í yfirborðsköfun nálægt grynningum við …
Leiðsögumaður fylgist grannt með köfurum í yfirborðsköfun nálægt grynningum við Silfru í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gestir hafa hætt við ferðir þegar í vatnið er komið, annaðhvort vegna þess að þeir hafa ekki burði til þess eða fá hræðslukast. Í sumum tilfellum orsakast það af skyndilegri vatnshræðslu þar sem gestir finna að þeir eru ekki syndir. Þá er vert að taka fram að ekki er gerð krafa um að fólk sé synt til að það megi fara í yfirborðsköfun í Silfru.

 Þjóðgarður sér um innviðina

Þjóðgarðurinn, Samgöngustofa og ferðaþjónustuaðilar fara sameiginlega með ábyrgð á svæðinu. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir að landverðir þjóðgarðsins hafi ekki eftirlitshlutverk með köfuninni sjálfri. „Þjóðgarðurinn hefur aðeins það hlutverk að sjá um þjónustu og aðbúnað á staðnum, allt sem snýr að margnefndum innviðum, stigar og pallar til að fara upp úr og í vatnið,“ segir Ólafur. Aðstaðan var bætt og endurnýjuð vorið 2016 með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Þá segir hann þjóðgarðinn einnig sjá um tíma- og fjöldaskráningar en fyrirtæki tilkynna þjóðgarðinum hvenær þau ætla að mæta og með hvað marga.

 Ferðaþjónustan með eftirlit

Samgöngustofa hefur gefið út fyrirmæli vegna köfunar og yfirborðsköfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem reglur um öryggiskröfur og búnað koma meðal annars fram. Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir þau hins vegar ekki vera með eftirlit á staðnum til að fylgja þeim reglum eftir. Það sé í höndum ferðaþjónustufyrirtækjanna að tryggja að þeim fyrirmælum sé framfylgt. „Það er ekki staðbundið eftirlit, við erum að sinna stjórnsýslulegu öryggiseftirliti, ferðaþjónustufyrirtækin skila til okkar öryggis- og viðbragðsáætlunum sínum og þau eiga að sjá til þess að þeim fyrirmælum Samgöngustofu sé framfylgt.“

Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert