„Láti minni hagsmuni víkja fyrir meiri“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ríkisstjórnin var þegar búin að gefa út yfirlýsingu um hún væri tilbúin að fara yfir þá stöðu sem bent er á að sé að valda einhvers konar mismunun í kerfinu. Það var komin skuldbinding til þess að skoða það. En það virtist ekki duga til og þá þarf að setjast aftur yfir málin og það ætla ég að gera núna með ráðherrunum,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is spurður hvort hann sjái einhvern flöt á aðkomu stjórnvalda að kjaradeilu sjómanna.

Vilyrði frá fjármálaráðuneytinu fylgdi kjarasamningum sem samið var um á milli sjómanna og útgerðarmanna síðasta sumar um að hluti fæðispeninga sjómanna yrði skattfrjáls. Þeir samningar voru síðan felldir en áætlað var að það myndi þýða 500 milljóna króna lægri skatt- og útsvarsgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga. Sjómenn og útgerðamenn segja nú að það sem standi út af í kjaradeilu þeirra sé að fæðispeningar sjómanna verði undanþegnir skatti sem myndi þýða að ríki og sveitarfélög yrðu af um 430 milljónum króna í skatt- og útsvarstekjur.

„Á þeim tímapunkti var okkur sagt að það væri þetta sem þyrfti til þess að ljúka samningum. Í þessari samningalotu hafa hins vegar verið á milli deiluaðila fjölmörg önnur atriði sem ríkið hefur enga aðkomu að og það er ekki fyrr en núna undir lokin sem menn eru farnir að tala skýrt um það hvað verið er að fara fram á. Þessu var svarað með almennri yfirlýsingu um að það yrði farið ofan í saumana á þessum hlutum. Það virðist ekki hafa dugað til og þá stöðu vil ég setjast núna yfir með þeim ráðherrum sem málið snertir,“ segir Bjarni.

Ekki sjálfsagt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið

Bjarni segir að fyrri ríkisstjórn hafi verið beðin um að koma að kjaradeilu sjómanna síðasta sumar á þeirri forsendu að þá væri málið að leysast. „Síðan þegar menn, þrátt fyrir þá aðkomu, fella samningana þá er komið aftur á byrjunarreit. Síðan hefur margt gerst í millitíðinni. Komin ný fjárlög, ný ríkisstjórn og nýir ráðherrar og það er ekkert sjálfsagt að menn taki bara upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar ýmsar forsendur hafa breyst. En eins og ég segi, það er komin yfirlýsing um að menn séu tilbúnir að skoða þessi mál með almennum hætti.“

„Ég trúi ekki öðru, vegna þess að mér sýnist að það sé stutt á milli manna, en að menn láti nú minni hagsmuni víkja fyrir meiri og lokið þessum samningum núna. Hvort við getum gert eitthvað til viðbótar við það sem áður hefur verið sagt, það skal ósagt látið. Ég ætla að fara aðeins betur yfir það með ráðherrunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert