„Eitt stórt takk og húrra“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með kjarasamningum sjómanna og útgerða er verið að koma í veg fyrir varanlegt tjón í greininni og fyrir þjóðarbúið og tryggja atvinnu bæði þeirra sem deildu og þeirra sem vinna í afleiddum störfum eins og fiskvinnslu. „Samningsaðilar stóðu sig eins og hetjur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.

Í nótt undirrituðu sjómenn og vélstjórar samning við útgerðarmenn. Sjómenn munu kjósa um samninginn um helgina og vélstjórar fram á næstu helgi og kemur þá í ljós hvort verkfalli verði að fullu afstýrt.

„Mér líst ótrúlega vel á þetta. Samningsaðilar risu undir traustinu sem ég alla tíð bar til þeirra,“ segir Þorgerður og bætir við að lok verkfalls séu gríðarlega dýrmæt fyrir greinina og ekki síður fyrir kjaraviðræður sem séu fram undan og sendi þau skilaboð til deiluaðila að það sé þeirra að klára samninga án aðkomu ríkisins.

Þorgerður segist hafa trú á því að mestallur eða allur loðnukvótinn veiðist á næstu vikum verði samningurinn staðfestur. „Síðustu dagar eru búnir að vera dýrir fyrir þjóðarbúið,“ segir hún og bætir við að fréttir næturinnar séu stórkostlegar fréttir fyrir alla aðila.

„Nú mun uppbyggingarstarf hefjast að nýju,“ segir hún og vísar þar til þess að einhver viðskiptasambönd kunni að hafa slitnað og vinna þurfi að því að byggja upp markaðsstarf að nýju erlendis. „Það sem hjálpar okkur er gott hráefni og vöntun á fiski og áralöng reynsla við að markaðssetja fiskinn,“ segir Þorgerður aftur á móti um verkefnið fram undan.

„Eitt stórt takk og húrra fyrir samningsaðilum,“ segir Þorgerður að lokum, enda augljóslega mjög ánægð með bæði útgerðir og sjómenn. „Þeir eiga mikið lof skilið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert