Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur frá 2001, hefur beðist lausnar frá embætti 31. maí næstkomandi. Hann er elsti starfandi sóknarprestur í borginni og sá reynslumesti. „Þegar ég áttaði mig á því ákvað ég að snarhætta,“ segir hann kíminn, en Signý Bjarnadóttir, líffræðingur og eiginkona hans, hættir einnig að vinna í vor.
Hjálmar er í fullu fjöri og hefur áhuga á að gera eitthvað allt annað áður en yfir lýkur. Í því sambandi nefnir hann til dæmis ritstörf og fararstjórn, en hann er samt ekki hættur prestsstörfum. Hefur tekið að sér margar hjónavígslur í sumar og segir að vel komi til greina að skjótast til þjónustu ef einhvers staðar þurfi að brúa bil. „Kannski fæ ég eitthvert spennandi atvinnutilboð með vorinu,“ segir Hjálmar.
„Margir góðir prestar hafa þjónað á undan mér í Dómkirkjunni og margir góðklerkar eiga eftir að þjóna á eftir mér,“ heldur Hjálmar áfram. „Ég tók við af góðum manni, séra Hjalta Guðmundssyni, sem gifti okkur hjónin forðum daga, og nú er ágætt að opna fyrir nýjum presti. Síðustu misseri hefur Karl Sigurbjörnsson biskup þjónað með mér og séra Sveinn Valgeirsson gegnt hlutverki sóknarprests. Sveinn er framtíðarmaður í kirkjunni.“
Hjálmar segir að starf dómkirkjuprests hafi verið ánægjulegt og gefandi þótt að sjálfsögðu hafi stundum verið sárar sorgarstundir. Við kirkjuna starfi frábært fólk, þar ríki glaðværð og þéttur hópur safnaðarfólks sinni vel um kirkjuna og starfið ásamt prestunum. „Ég er ekkert að yfirgefa það vinafólk mitt, öðru nær, en ég mun heldur ekki flækjast fyrir arftakanum í embætti.“
Hjálmar vígðist 1976 og byrjaði að þjóna í Bólstaðarhlíðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi og varð síðan sóknarprestur í Sauðárkróksprestakalli, þar sem hann varð fljótlega prófastur. „Það var framhaldsháskóli að vera hjá Húnvetningum og síðar Skagfirðingum,“ segir hann.
Sóknarpresturinn var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra frá 1991 og 1995 var hann síðan kjörinn á þing, þar sem hann sat til 2001. Ólafur G. Einarsson var forseti Alþingis 1995-1999.
Hjálmar saknaði stundum þjónustunnar í kirkjunni en brást við nýjum aðstæðum með þessari vísu:
inn á þing ég er dottinn.
Það er ólíkt að ávarpa þá,
Ólaf G. eða Drottin.
Hann segir það hafa verið mjög áhugavert að kynnast Alþingi og þingstörfunum. „Umræðan úti í þjóðfélaginu er samt oft svolítið skrýtin,“ segir Hjálmar og leggur áherslu á að þjóðfélagsumræðan verði oft yfirborðsleg og allt of lítið skeytt um staðreyndir.
„Við ættum að temja okkur yfirvegaðar rökræður, upplýst fólk í lýðræðisþjóðfélagi á að hafa alla burði til þess. Alþingi getur unnið sem ein heild fyrir heila þjóð, viðurkennt vissulega fjölbreytileikann og skiptar skoðanir, en ætti að hætta þessu einkennilega karpi sem aðeins dregur úr trúverðugleikanum. Kirkjan þurfi líka að huga að þessu. Víða í íslensku samfélagi þurfum við að skýra og skerpa hver höfuðmarkmiðin séu. Lífshamingjan fæst ekki með neikvæðni. Temjum okkur aðferð Dúdda á Skörðugili í Skagafirði og höfum vit á að vera í góðu skapi.“
Sóknarprestar hafa almennt lítinn tíma til að sinna áhugamálum utan vinnunnar, því starfið er tímafrekt. „Maður er upptekinn af þessu hlutverki og hugsar um það meira og minna,“ segir Hjálmar. Hann segist samt hafa gefið sér tíma til þess að skreppa í golf. Það sé góð leið til þess að dreifa huganum og hvíla sig frá daglegu amstri. „Það verður mikið spilað í sumar,“ segir hann og bætir við að kveðjumessan verði 28. maí næstkomandi.