Brugðust strax við vegna drullusvaðs

Ferðamenn á stígnum við Gullfoss eftir að mölin hafði verið …
Ferðamenn á stígnum við Gullfoss eftir að mölin hafði verið sett á hann. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Ferðamenn voru farnir að leita út fyrir stíga við Gullfoss eftir að hluti þeirra breyttist í drullusvað í síðustu viku. Að sögn Lárusar Kjartanssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, var brugðist strax við og enginn skaði var skeður.

Framkvæmdin tók tvo daga

Lárus segir að þau sex vörubílshlöss af harpaðri möl sem voru notuð í stígana hafi verið sótt alla leið í Ingólfsfjall. Gamli Kjalvegur var nýttur til að flytja efnið, þannig að ekkert rask yrði af framkvæmdinni, sem tók tvo daga.

Að sögn Lárusar voru mottur settar á stígana fyrir tveimur árum en þær hafi ekki dugað í þetta sinn, vegna mikils fjölda ferðamanna sem þarna gengur um.

Mölin var sett á tvö svæði, annars vegar á tanga fyrir ofan gilið þar sem horft er beint ofan í fossinn og hins vegar fyrir ofan gamla stigann en verið er að setja upp nýjan stiga um þessar mundir. Lárus segir að mölin hafi verið sett á svæðin til bráðabirgða.

Göngustígur breikkaður

Hann greinir frá því að í sumar sé áætlað að breikka göngustíginn frá Gullfosskaffi niður að stiganum úr tveimur metrum í fjóra metra. Gert er ráð fyrir að hafa hann steyptan með lögnum undir, þannig að ekki myndist þar hálka.

Einnig stendur til að skipta út útsýnispalli á efra svæðinu og laga öryggisgirðingar ef fjármagn fæst til þess. Fyrst verður þó nýi stiginn kláraður og stefnt er á að hann komist í gagnið í vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert