Óhófleg drykkja tíðari hér en á Norðurlöndunum

Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi, rúmlega …
Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi, rúmlega 42%. Hlutfallið var lægst í Danmörku, 27,5%, en á milli Íslands og Danmörku eru Finnland með rúm 37% og Þýskaland með nær 40%. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áfengis er sjaldnar neytt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum en óhófleg drykkja er hins vegar nokkuð tíðari hér. Þetta kemur fram í niðurstöðum evrópskrar heilsufarsrannsóknar sem Hagstofa Íslands segir frá á vef sínum.

Ísland er með sjöunda lægsta hlutfallið sem drekkur að minnsta kosti einu sinni í viku eða oftar, eða rétt rúmlega 20%. Hlutfallið er hæst í Bretlandi, 52,5%. Af Norðurlöndunum er Danmörk með hæsta hlutfallið, rúmlega 51%, sem er þriðja hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í rannsókninni. Næst kemur Svíþjóð í 8. sæti með tæplega 40% og Finnland í 9. sæti með rúmlega 39%. Noregur er með lægra hlutfall, eða rétt tæplega 33% og er í 15. sæti.

Ef eingöngu er horft til þeirra sem drekka áfengi daglega er hlutfallið á Íslandi 0,6%, sem þýðir að Ísland er ásamt Litháen með næstlægsta hlutfallið. Hlutfallið mælist hæst í Portúgal, rúmlega 24%, en á eftir koma Spánn (rúmlega 15%), Belgía og Ítalía (rúmlega 14%) og Danmörk (rúmlega 11%). Ef Danmörk er undanskilin, með rúmlega 11%, er hlutfall fólks sem drekkur á hverjum degi fremur lágt á Norðurlöndunum, rúmlega 2% í Noregi og tæplega 3% í Finnlandi og Svíþjóð.

Á Íslandi er hlutfall fólks sem drekkur einu sinni í mánuði eða oftar (en þó ekki vikulega) það annað hæsta, eða rúmlega 39%. Hæst er það í Noregi, rúmlega 49%. Þá er hlutfall fólks á Íslandi sem drekkur sjaldnar en einu sinni í mánuði nokkuð hátt, tæplega 22%, sem er sjöunda hæsta hlutfallið í rannsókninni.

Hlutfall óhóflegrar drykkju rúm 42%

„Þessar niðurstöður benda til þess að tíðni drykkju sé hófleg á Íslandi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og í samanburði við hin Norðurlöndin. Það segir þó ekkert til um magn áfengis sem er neytt,“ segir á vef Hagstofunnar.

„Óhófleg drykkja er skilgreind sem neysla 60 gramma af hreinum vínanda í einni setu sem jafngildir 3 stórum bjórum eða 5 vínglösum. Með tíðni er átt við hversu oft á síðustu 12 mánuðum neysla áfengis samsvarar óhóflegri drykkju.“

Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi, rúmlega 42%. Hlutfallið var lægst í Danmörku, 27,5%, en á milli Íslands og Danmörku eru Finnland með rúm 37% og Þýskaland með nær 40%.

Ísland er með annað hæsta hlutfallið sem neytir þetta mikils magns af áfengi sjaldnar en einu sinni í mánuði (tæplega 32%) og fjórða hæsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn nokkrum sinnum í mánuði (en þó ekki í hverri viku), eða tæp 24%. Aftur á móti er Ísland með áttunda lægsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn í hverri viku, rétt rúm 2% sem er vel undir meðaltali Evrópusambandsins sem er rúm 5%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert