Hefur engar skýringar fengið

Ljósmynd/Isavia

Velskur kennari sem vísað var úr flugvél í Keflavíkurflugvelli í síðustu viku sem var á leið til Bandaríkjanna hefur enn ekki fengið neinar skýringar á málinu. Þetta er haft eftir honum á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Kennarinn, Juhel Miah, var kominn um borð í flugvélina, sem var á vegum Icelandair, þegar hann var beðinn um að yfirgefa hana.

„Ég vil bara fá ástæðu, ég vil vita hvers vegna þeir spörkuðu mér úr flugvélinni,“ segir Miah í fréttinni en hann starfar við Llangatwg-skólann í Wales. Miah var á leið til New York ásamt hópi nemenda við skólann og nokkrum öðrum starfsmönnum við hann þegar honum var vísað úr flugvélinni á þeim forsendum að hann þyrfti að gangast undir öryggisleit.

Frétt mbl.is: Leið eins og glæpamanni við að vera vísað úr vélinni

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir í samtali við mbl.is að farþega hafi fylgt úr flugvél á vegum félagsins á leið til Bandaríkjanna. Þar hafi verið að framfylgja fyrirmælum frá bandarískum yfirvöldum. Hins vegar hefði Icelandair ekki upplýsingar um það hvers vegna lagst hefði verið gegn því að maðurinn ferðaðist til Bandaríkjanna.

Starfsmenn ISAVIA komu ekki að málinu og ekki heldur lögreglan á Keflavíkurflugvelli samkvæmt upplýsingum frá henni. Málið hefur ekki komið inn á borð bandaríska sendiráðsins á Íslandi en breska sendiráðið aðstoðaði manninn vegna málsins enda breskur ríkisborgari. Miah mun hafa tvöfalt ríkisfang en hann er ættaður frá Bangladesh.

Frétt mbl.is: Múslima vísað frá borði á Keflavíkurflugvelli

Miah segir við BBC að helst komi honum til hugar að ástæðan fyrir því að hann fékk ekki að ferðast til Bandaríkjanna sé sú að hann er múslimi. Hann segir lífsreysluna hafa verið ógnvekjandi og niðurlægjandi. Stjórnmálamenn í Wales hafa farið fram á skýringar frá bandarískum stjórnvöldum og óskað eftir því að breska ríkisstjórnin beiti sér í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert