Mál velsks kennara sem í síðustu viku var meinað að ferðast áfram til Bandaríkjanna eftir að hafa stigið um borð í farþegaflugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli var rætt á Alþingi í dag undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir.
Málshefjandi var Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem beindi fyrirspurn um málið til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Sigríður sagðist hafa heyrt fréttir af málinu. Hins vegar hefði málið ekki komið inn á borð ráðuneytisins.
Frétt mbl.is: Hefur engar skýringar fengið
Henni væri ekki kunnugt um hvers vegna kennaranum hefði verið meinað að ferðast til Bandaríkjanna. Hins vegar heyrði málið ekki undir íslensk stjórnvöld. Um væri að ræða mál á milli breskra og bandarískra ráðamanna.
Rósa spurði hvers vegna farið hefði verið í þessar aðgerðir á Keflavíkurflugvelli. Sigríður sagði ráðuneyti sitt ekki hafa neinar upplýsingar um það. Ítrekaði hún að málið væri á milli bandarískra og breskra stjórnvalda. Málið snerist um ákvörðun bandarískra stjórnvalda um breskan ríkisborgara.
Eðlilegt væri að stjórnvöld hér fylgdust með málinu og öðrum slíkum ef þau kæmi upp. Ekki myndi standa á henni að upplýsa um slík mál ef þau ættu sér stað á íslenskri grundu og kæmu inn á borð ráðuneytis hennar.