„Það er kominn tími til þess að ráðherra svari fyrir þá ákvörðun sína að birta ekki skýrsluna,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í sérstökum umræðum um skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.
Björn Leví var málshefjandi og til andsvara var Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Björn talaði um að Bjarni hafi svikið kjósendur með því að bíða með að birta skýrsluna þangað til fram yfir síðustu alþingiskosningar þrátt fyrr að hún hafi verið tilbúin nokkrum mánuðum áður. Þannig hafi hann komið í veg fyrir að kjósendur gætu lagt eigið mat á upplýsingarnar sem komu fram í skýrslunni.
„Það er óásættanlegt að ráðherra geri svona. Þingmenn verða að krefjast agaðri vinnubragða,“ sagði hann og óskaði eftir því að forsætisráðherra útskýrði mistök sín, bæðist afsökunar og segði svo af sér.
Hann sagði að skýrslan varðaði almannahag og spurði hvort Bjarni hafi brotið siðareglur og hvort hann hafi ekki verið vanhæfur til að taka ákvörðun um birtingu skýrslunnar.
Bjarni svaraði orðum Björns þannig að í þriðju grein stjórnsýslulaganna sé fjallað um hvenær stjórnmálamenn séu vanhæfir og hvenær þeim beri að víkja sæti. „Það er alveg skýrt að ákvörðunin um gerð skýrslunnar er engin stjórnvaldsákvörðun og því eiga lögin ekki við,“ sagði hann og nefndi að hann hafi sjálfur tekið ákvörðunina um gerð skýrslunnar.
Hann kveðst ekki sjá að árekstur hafi orðið á milli persónulegra hagsmuna hans og hagsmuna almennings. „Það hafa engin lög eða reglur verið brotnar hér. Engin mál sem varða ráðherra voru til skoðunar,“ sagði hann og vísaði því á bug að hann hefði verið vanhæfur.
Bjarni nefndi að skýrslan hafi verið gerð að hans frumkvæði og að hann hafi ekki haft afskipti af gerð hennar. Hann nefndi að skýrslan kalli á mun fleiri athuganir því mörgum spurningum sé þar ósvarað.
Að sögn Bjarna var skýrslan kynnt ríkisstjórn 7. október með minnisblaði og hafi verið tilbúin til birtingar í framhaldi af því. Fyrst vildi hann þó að skýrslan skyldi afhent efnahags- og viðskiptanefnd. Það hafi tengst stefnumótun og lagabreytingum. „Ég mat það svo að það væri varla ráðrúm til að kynna skýrsluna í ljósi þess að kosningar voru fram undan.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati sagði að viðbrögð ráðherra hafi ekki komið henni á óvart og nefndi að hann hefði áður leynt upplýsingum um skattaskjól og misbeitt valdi sínu.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ósáttur við umræðuna: „Þetta er ömurleg umræða og ömurlegur málflutningur, algjörlega ömurlegur og ekki nokkrum manni sæmandi.“
Hann sagði eðlilega skýringu vera á því hvers vegna skýrslan var ekki birt strax. „Þetta mál var til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili og það stóð alltaf til að þetta færi til nefndarinnar. Það er alrangt að hún sé stútfull af upplýsingum sem hafi skipt máli fyrir kosningar,“ sagði hann.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að leggja hefði átt skýrsluna fram um leið og hún var tilbúin. „Skýrsla er tilbúin þegar hún er tilbúin. Þá á að leggja hana fram, sama hvað ráðherra telur vera rétt eða ekki.“
Bjarni Benediktsson nefndi í lok umræðunnar að þingmenn gætu komið með vantrauststillögu á hann ef þeir telja að hann hafi misbeitt valdi sínu.
„Þessir háttvirtu þingmenn þurfa aðeins að kafa dýpra og kynna sér þau úrræði sem eru til staðar. Menn þurfa að fylgja því eftir með athöfnum og koma með vantrauststillögu.“