Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur beðist afsökunar á orðum sem hún lét falla í umræðuþættinum Silfrinu síðasta sunnudag. Ræddi hún þar um húsnæðismarkaðinn hér á landi og erfiðleika ungs fólks að safna sér fyrir útborgun á fyrstu íbúð. Sagðist hún meðal annars ekki sjá fyrir sér að geta keypt íbúð á næstunni.
Í kjölfarið fóru af stað umræður á samfélagsmiðlum þar sem bent var á hverjar tekjur Ástu væru og að hún ætti að geta safnað upp fyrir útborgun með laun þingmanns.
„Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að aðstæður mínar eru ekki sambærilegar við aðstæður fólks almennt á Íslandi og ég skil vel hvernig þessi ummæli þóttu óviðeigandi og jafnvel særandi,“ segir Ásta í færslu á Facebook í dag.
Sagði hún að í þessari umræðu um hennar eigin stöðu hafi týnst hversu miklar hækkanir hafi verið á húsnæði og að hún hafi viljað beina kastljósinu að stöðu ungs fólks í því samhengi. Segir hún það vera aðstæður sem hún hafi sjálf upplifað fyrir ekki svo löngu og tengi við. „Ég læri af mistökum og geri betur næst. Því get ég lofað,“ endar hún færsluna sína á.