Vilja lækka launin með lögum

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um kjararáð þess efnis að ráðinu verði gert að taka nýja ákvörðun eigi síðar en 28. febrúar um kjör þingmanna og ráðherra sem feli í sér launalækkun þeim til handa. Launin skuli þess í stað fylgja almennri launaþróun frá 11. júní 2013 í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands.

Ennfremur að kjararáð skuli kveða upp nýja úrskurði um aðra þá sem undir ráðið heyra til samræmis við launalækkun til þingmanna og ráðherra og samkvæmt sömu forsendum. Ákvæðið gildi þó ekki um forseta Íslands þar sem stjórnarskráin heimili ekki lækkun á greiðslum til hans á kjörtímabili hans. Sömuleiðis að kjararáð skuli veita fulltrúum launafólks og atvinnurekenda kost á að leggja fram skriflegar greinargerðir til ráðsins vegna þeirra mála sem þar eru til úrlausnar.

„Meginmarkmið frumvarpsins er að minnka þann skaða sem ákvörðun Kjararáðs hefur skapað á að raska kjarasamningum þorra launafólks og setja stöðugleika efnahagslífsins í hættu. Kjarasamningar um 70% launafólks eru komnir í uppnám m.a. vegna ákvarðanna Kjararáðs um tugprósenta hækkanir á launum ráðamana. Með samþykkt frumvarpsins sýnir Alþingi fordæmi í átt til sátta,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Fyrsti flutningsmaður er Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert