Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti.
Markmiðið er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Með orkuskiptunum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og nýrri atvinnustarfsemi sem byggist á sjálfbærri þróun.
Að því skal stefnt að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum.
mbl.is/Ómar
Í aðgerðaáætlun um orkuskipti verði eftirfarandi haft að leiðarljósi:
- Markmið um orkuskipti. Að því skal stefnt að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins er um 70%. Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi er nú um 6%. Stefnt er að 10% hlutfalli endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi fyrir árið 2020 og 40% árið 2030. Endurnýjanleg orka sem notuð er á innlendum fiskiskipum er 0,1%. Stefnt er að 10% hlutfalli fyrir haftengda starfsemi árið 2030.
- Hagrænir hvatar. Tryggðar verði hagrænar forsendur sem stuðla að orkuskiptum og orkusparnaði. Hvati verði til staðar fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum sem stuðli að aukinni framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa. Ívilnanir og hvatar hafi skilgreindan gildistíma sem auðveldi ákvarðanatöku og langtímaáætlanir fjárfesta. Hvatt verði til aukinnar framleiðslu og notkunar innlends endurnýjanlegs eldsneytis sem stuðli að gjaldeyrissparnaði, fjölgun starfa og auknu orkuöryggi. Dregið verði úr opinberum stuðningi eftir því sem viðkomandi tæknilausnir verða samkeppnishæfari á markaði.
- Innviðir. Unnið verði markvisst að uppbyggingu nauðsynlegra innviða til að tryggja framgang orkuskipta. Stutt verði við uppbyggingu innviða svo unnt verði að ferðast hindrunarlaust á vistvænum ökutækjum í þéttbýli og á skilgreindum leiðum utan þéttbýlis fyrir árið 2025. Stefnt skal að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025.
- Orkusparnaður. Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar á öllum sviðum. Aukinn orkusparnaður hefðbundinna tæknikosta leikur lykilhlutverk í minni losun gróðurhúsalofttegunda og bættri nýtingu orkuauðlinda og hefur verið undanfari orkuskipta. Verulegur árangur hefur náðst í bættri orkunýtingu hefðbundinna ökutækja, skipa og flugvéla á undanförnum áratugum og skal áfram lögð áhersla á bætta orkunýtni hvort sem eldsneytið er af jarðefna- eða endurnýjanlegum uppruna.
- Samstarf. Tryggt verði nauðsynlegt samstarf allra aðila innan stjórnskipulagsins, samfélagsins og atvinnulífsins og stuðlað að samstöðu um aðgerðir sem snúa að orkuskiptum og orkusparnaði.
- Rannsóknir, þróun og nýsköpun og alþjóðasamstarf. Stuðlað verði að rannsóknum, tækniþróun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum. Efla skal stuðningsumhverfi nýsköpunar í tengslum við orkuskipti. Þátttaka í erlendu samstarfi er mikilvægur liður í að laða að þekkingu og fjármagn til málaflokksins og því taki Ísland þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði eftir því sem efni þykja til. Alþingi ályktar að samþykkja aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem endurmetin verði á fimm ára fresti. Birtar verði skýrslur um framvindu verkefna í áætluninni sem verði grundvöllur endurmats.
Stefnt skal að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025.
mbl.is/Styrmir Kári
Tillagan var unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Grænu orkunnar – samstarfsvettvangs um orkuskipti.