Ekki er hægt að fá svokallaðan UHT-meðhöndlaðan rjóma frá Mjólkursamsölunni en hann er að sögn Hafliða Ragnarssonar, súkkulaðimeistara Mosfellsbakarís, hitameðhöndlaður rjómi sem tryggir aukið öryggi rjómans.
„Þetta er staðallinn í matvælaframleiðslu í dag, hvort sem um er að ræða egg, rjóma eða aðra vöru. Um er að ræða dauðhreinsun eða UHT-meðhöndlun sem kemur m.a. í veg fyrir salmonellusmit. Þennan rjóma þurfum við að panta frá útlöndum því Mjólkursamsalan býður ekki upp á slíkan rjóma hér á landi,“ segir Hafliði og bendir á að þó að rjóminn sé töluvert ódýrari erlendis en hér á landi bætist við tollar og hvers konar opinber gjöld sem á endanum geri innflutninginn dýrari.
„Ég botna ekkert í þessu landbúnaðarkerfi. Íslenskur rjómi er góður en við þurfum að leita annað vegna skorts á vöruúrvali og okkur er þá refsað með tollum. Smjörið er annað dæmi. Ég vil nota vatnshreinsað smjör í sumt sem ég er að gera en það fæst ekki hjá Mjólkursamsölunni og þar með ekki á Íslandi. Íslenska smjörið er mjög gott en ef ég vil það unnið með öðrum hætti þarf að leita út fyrir landsteinana.“