„Það er okkar sameiginlega mat að ákvarðanir í kjaramálum frá febrúar 2016, af hálfu opinberra aðila, hafa ekki verið í samræmi við þá launastefnu sem var mörkuð meðal annars með rammasamkomulaginu. Sú forsenda telst því vera brotin en ekki uppfyllt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Samninganefndin þarf að ákveða fyrir kl. 16 þriðjudaginn 28. febrúar hvort hún telji forsendur síðustu kjarasamninga á almennum markaði hafi verið uppfylltar. Verði samningum sagt upp falla þeir úr gildi í lok apríl. Eins og staðan er núna er forsendunefndin svokallaða að störfum, sem kannar hvort forsendur hafi staðist og skilar niðurstöðu sinni til samninganefndarinnar á föstudaginn næsta.
Í kjarasamningi á almenna markaðnum þurftu stjórnvöld að uppfylla þrjú skilyrði svo forsendur væru fyrir samningnum. Tvö þessara skilyrða hafa verið uppfyllt, annars vegar hefur kaupmáttur hækkað í samræmi við áætlanir og húsnæðismálin teljast einnig hafa verið uppfyllt, að sögn Gylfa. Það sama eigi ekki við um þriðja atriðið og vísar Gylfi til forsendubrests þegar kemur að launaþróun annarra hópa.
„Forsendubresturinn liggur til dæmis í kjarasamningi kennara og tónlistakennara og úrskurði kjararáðs um hækkun launa embættismanna og þingmanna,“ segir Gylfi og bendir á að launaþróun síðastnefnda hópsins hafi verið talsvert hærri en annarra hópa. „Þetta er þyrnir í augum verkalýðshreyfingarinnar.“
Hins vegar segir Gylfi það ekki góðan kost ef samningurinn falli úr gildi. Hann bendir á að enginn sé tilbúinn að ræða nýtt samningamódel sem byggist á því að æðstu stjórnendur landsins hafi aðra og betri launaþróun fyrir sig en aðrir fá. Í þessu samhengi bendir hann á að líklega sé skárst að bíða með endurskoðun kjarasamninga í eitt ár og leyfa ríkinu að semja við sína hópa á þessu ári út frá þessari nýju stefnu.