Þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu í ræðustól Alþingis við upphaf þingfundar í dag undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir að hafa ekki tekið þátt í tveimur sérstökum umræðum sem fram fóru í þinginu í gær.
Sérstöku umræðurnar fjölluðu annars vegar um skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og hins vegar um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána. Þingmennirnir bentu á að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og aðrir sjálfstæðismenn hefðu þess í stað verið látnir um að taka þátt í umræðum um málin tvö.
Voru þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hvattir til þess að taka til máls í umræðum um fundarstjórn forseta og gera grein fyrir afstöðu sinni til þeirra mála sem voru til umræðu í gær. Enginn þeirra varð hins vegar við því og tók til máls.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að hann hefði setið á þingi í 14 ár og aldrei orðið vitni að annarri eins uppákomu. Að þingmenn stjórnarandstöðunnar kæmu í röðum upp í ræðustól og kvörtuðu yfir því að flokkar hefðu ekki tekið þátt í umræðum daginn áður. Sagði hann þetta einhverja „furðulegustu fýlubombu“ sem hann hefði orðið vitni að.