Hvorki salmonella né smit í rjómanum

Rjóma er víða að finna, m.a. er hann gjarnan í …
Rjóma er víða að finna, m.a. er hann gjarnan í bollum, en bolludagurinn nálgast nú í allri sinni dýrð. Styrmir Kári

Engin hætta er á því að sá rjómi, sem framleiddur er hér á landi, beri með sér mögulegar smitbakteríur úr mjólk, hvað þá salmonellu og engin þörf er að hita hann meira en gert er við hefðbundna gerilsneyðingu, en rjómi er oftast gerilsneyddur við hærra hitastig en 92 °C. Þetta segir Kjartan Hreinsson, sérgreinadýralæknir, hjá Matvælastofnun.

Í Morgunblaðinu í dag var haft eftir Hafliða Ragnarssyni hjá Mosfellsbakaríi að UHT-meðhöndlun sé „staðallinn í matvælaframleiðslu“ í dag hvort sem um sé að ræða rjóma, egg eða aðra matvöru og að hún komi m.a. í veg fyrir salmonellusmit. Hann segir þar að UHT-meðhöndlaðan rjóma sé ekki hægt að fá hér á landi og því þurfi að flytja hann inn með tilheyrandi kostnaði og tollum sem geri þessa tegund rjóma dýrari en ella. 

Mjög örugg vara

Kjartan segir ekki rétt að UHT-meðhöndlun sé staðallinn í framleiðslu á mjólkurvörum í dag allavega ekki í þeim löndum sem hafa virka kælikeðju á matvælum.  Allur rjómi, sem framleiddur sé og seldur hér á landi sé gerilsneyddur við a.m.k. 92°C í 15 sekúndur. „Það eru engin tilfelli um að menn hafi smitast af einu eða neinu af rjómanum eins og hann kemur úr fernunni, þetta er mjög örugg vara,“ segir Kjartan.

UHT er skammstöfun á ensku fyrir Ultra High Temperature (Ofurhátt hitastig), þetta er hitun upp í 135 - 150°C í 2-6 sekúndur og hefur þessi aðferð stundum verið kölluð leifturhitun á íslensku.  Að sögn Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar, er gerilsneyðingu hjá MS þannig háttað að rjóminn er hitaður í 95°C í 15 sekúndur sem er svokölluð háhitagerilsneyðing. 

„Mögulegar smitbakteríur, sem kunna að vera í mjólkinni, lifa þessa meðferð ekki af. Hún drepur meirihlutann af öllum bakteríum sem hugsanlega gætu verið í henni og þetta er unnið í lokuðu ferli sem er eins öruggt og það getur verið,“ svarar Kjartan, spurður um hvort þessi hefðbundna gerilsneyðing, sem Ari lýsir, dugi.

Fólk vill ferska vöru

Ari segir að MS hafi framleitt UHT-meðhöndlaðan rjóma, svokallaðan G-rjóma, um skeið. Lítil eftirspurn hafi verið eftir honum og því hafi framleiðslunni verið hætt. „Varan tapar eiginleikum sínum, eins og t.d. bragði, með því að hita hana of mikið. Bragðmunurinn á þessari vöru og hefðbundnum rjóma frá okkur var álíka og á nýmjólk og G-mjólk,“ segir Ari en síðarnefnda mjólkurtegundin er einmitt nýmjólk sem hefur verið UHT-meðhöndluð. „Fólk vill ferska vöru með fersku og hreinu mjólkurbragði.“

Í áðurnefndri grein í Morgunblaðinu í dag segir Hafliði í Mosfellsbakaríi að UHT -meðhöndlun komi í veg fyrir salmonellusmit. Spurður um hvort hafa þurfi áhyggjur af slíku smiti í mjólkurvörum sem gerilsneyddar séu á venjubundinn hátt segir Kjartan svo ekki vera og svo hafi aldrei verið. „Salmonella drepst við 65-70°C hita, þannig að þetta hefur nákvæmlega ekkert með slíkt smit að gera. Sá rjómi sem er á markaði, hvort sem hann er UHT-meðhöndlaður eða ekki, er fullkomnlega örugg vara, þ.e.a.s. fram að því að hann er opnaður. Eftir það er öryggið í höndum þess sem opnar fernuna og ekkert sem framleiðandinn getur þá gert.“

Ítarlegri umfjöllun verður í Morgunblaðinu á morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert