Rúmlega tvö þúsund manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista gegn frumvarpi um að leyfa frjálsa sölu áfengis og áfengisauglýsinga á vefnum www.allraheill.is. Skráningin hófst í gær.
„Þegar við náum 20 þúsund munum við afhenta þingmönnum listann. Þetta er ólýðheilsulegasta frumvarp sem hefur verið lagt fram,“ segir Aðalsteinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi, sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni. Hann spyr jafnframt hvaða hagsmuna er verið að gæta með frumvarpinu.
Aðalsteinn segist finna mikinn meðbyr með málefninu. Árið 2015 þegar sambærilegt frumvarp var einnig til umræðu afhentu samtökin yngsta þingmanni Alþingis, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, um tvö þúsund undirskriftir sem höfðu safnast við sama tilefni.