Tók myndband af brottvísuninni

Juhel Miah.
Juhel Miah. Skjáskot

Velski kennarinn Juhel Miah, sem var vísað úr farþegaflugvél Icelandair í síðustu viku sem var á leið til Bandaríkjanna frá Keflavík samkvæmt fyrirmælum bandarískra stjórnvalda, tók upp ferlið á farsímann sinn sem tók við í kjölfar þess að honum var gert að yfirgefa flugvélina.

Frétt mbl.is: Hefur engar skýringar fengið

Myndbandið hefur verið birt á Facebook-síðu breska ríkisútvarpsins BBC. og má sjá það hér fyrir neðan. Miah hefur enn ekki fengið skýringar á því hvers vegna honum var gert að yfirgefa flugvélina. Eina skýringin sem honum sjálfum hefur komið til hugar er sú að hann er múslimi og heitir Mohammed að fornafni sem hann notar hins vegar allajafna ekki.

Miah er breskur ríkisborgari og með tvöfalt ríkisfang en fjölskylda hans kemur frá Bangladesh. Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun fyrr á árinu þess efnis að íbúum sjö ríkja þar sem múslímar eru í meirihluta yrði bannað tímabundið að koma til Bandaríkjanna.

Tilskipunin nær einnig til þeirra sem hafa ferðast til landanna en þau eru Írak, Lýbía, Íran, Sómalía, Súdan, Sýrland og Jemen. Það hefur Miah hins vegar ekki gert. Tilskipun Trumps er hins vegar ekki lengur í gildi þar sem dómstólar hafa lögmæti hennar til umfjöllunar. 

Myndbandið sýnir Miah fylgt um flugstöð Leifs Eiríkssonar af starfsmanni og hann síðan bíða eftir því sem tæki við eftir að hafa fengið farangurinn sinn afhentan. Ennfremur þegar hann fer til fundar við starfsmenn bandaríska sendiráðsins þar sem hann segir að honum hafi eingöngu verið afhent nafnspjald með símanúmeri sem ekki hafi virkað.

Frétt mbl.is: Leið eins og glæpamanni við að vera vísað úr vélinni

Miah segir í viðtali við Channel 4 News að vandræðin hafi hafist þegar bandarískur embættismaður hafi skoðað vegabréfið hans við innritunina á Keflavíkurflugvelli. Hún hafi, eins og það hafi komið honum fyrir sjónir, aðeins lesið nafnið hans, Mohammed, en ekki skoðað myndina af honum til þess að kanna hvort vegabréfið tilheyrði honum. Síðan hafi hún komið síðar um borð í flugvélina og tilkynnt honum að hann fengi ekki að ferðast til Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert