Vill að Alþingi hafni áfengisfrumvarpi

Horft yfir Vesturbæ og út á Seltjarnarnes.
Horft yfir Vesturbæ og út á Seltjarnarnes. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bæjarstjórn Seltjarnarness hvetur alþingismenn til þess að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og heimilar áfengisauglýsingar.

Þetta kemur fram ályktun sem var samþykkt af meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness fyrir stundu.

„Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna og fjölmargir aðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara við þeirri breytingu sem felst í samþykkt frumvarpsins og benda á að rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi, sem verður með mikilli fjölgun sölustaða, leiðir til aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna. Kannanir sýna að meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpinu. Þessar ábendingar verður að taka alvarlega,“ segir í ályktuninni.

„Íslendingar hafa tekið forvarnir gegn ávana- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna föstum tökum og náð þar undraverðum árangri. Bæjarstjórn Seltjarnarness leggur mikla áherslu á forvarnastarf og setur í forgang að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Það er gleðilegt að sjá það meðal annars skila sér í því að ávana- og vímuefnaneysla barna og ungmenna á Seltjarnarnesi er með því allra minnsta sem þekkist hér á landi. Það er mikilvægt að við glutrum ekki niður þessum góða árangri. Við eigum að láta hagsmuni og velferð barna og ungmenna njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.“

Magnús Örn Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn ályktuninni og bókaði meðal annars að hann styddi „frumvarp um afnám einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis sem lagt hefur verið fram af þingmönnum fjögurra flokka - og hvetur alþingismenn til að samþykkja það.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, sat hjá við afgreiðslu ályktunarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert