Bandarísk forvottun í Keflavík til skoðunar

Mikil gerjun er í flugheiminum. Nýjum ferðakostum fjölgar og Íslendingar …
Mikil gerjun er í flugheiminum. Nýjum ferðakostum fjölgar og Íslendingar eru duglegri að ferðast um háloftin flesta aðrar þjóðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Engir opinberir bandarískir embættismenn starfa á Keflavíkurflugvelli við innritun farþega eða landamæraeftirlit, samkvæmt upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum.

Velski kennarinn Juhel Miah, sem var vísað úr flugvél Icelandair sem var á leið til New York í síðustu viku, hefur sagt við breska fjölmiðla að bandarískur embættismaður hafi skoðað vegabréf hans á flugvellinum og komið um borð í flugvélina og tilkynnt að hann fengi ekki að ferðast til Bandaríkjanna. Starfsmaðurinn sem um ræðir starfar hjá Icelandair.

Flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna senda farþegalista til landamærayfirvalda þar í landi fyrir hvert flug. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair og WOW air er það fátítt að farþegar fái ekki að halda áfram för sinni vestur um haf.

Forskoðunarstöð í skoðun

Utanríkisráðuneytið greindi frá því í nóvember 2016 að bandarísk yfirvöld myndu að ósk Íslands kanna kosti þess að koma á fót tollskoðun og forvottun farþega á leið til Bandaríkjanna við brottför frá Keflavíkurflugvelli. Slíkt fyrirkomulag er nú við lýði á nokkrum flugvöllum, m.a. í Dublin á Írlandi. Svíar skrifuðu undir samning við Bandaríkin 4. nóvember 2016 um að setja upp landamærastöð af því tagi á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi. Hún verður opnuð árið 2019.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði að ef yrði af áformum um bandaríska tollskoðun og forvottun farþega á leið til Bandaríkjanna um Keflavík mætti reikna með að það tæki 3-5 ár að undirbúa það. Hann sagði að eftir væri að kanna hvort slík starfsemi myndi henta vegna tengiflugs og annarra þátta. Komi þetta til með að lengja tengitíma milli flugferða væri ólíklegt að af því yrði.

Harðnandi samkeppni

Norska flugfélagið Norwegian hyggst stórauka flug milli Evrópu og Bandaríkjanna. Bætt verður við nýjum viðkomustöðum vestanhafs. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulag þess í dag og farmiðasala er að hefjast. Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian, sagði í samtali við CNN að farmiðaverðið yrði undir 100 bandaríkjadölum hvora leið.

Fréttavefurinn Anna Aero greindi frá því að meira en 50 nýir ferðakostir bættust við milli Evrópu og Bandaríkjanna í sumar. Þar munar mest um viðbætur hjá flugfélögunum airberlin, Norwegian og WOW air. Hins vegar hafa 23 ferðakostir verið felldir niður frá í fyrra þannig að hrein viðbót er 28 ferðakostir milli álfanna tveggja.

Íslensku flugfélögin, sem fljúga milli Bandaríkjanna og Evrópu, búa sig undir aukna samkeppni. Icelandair Group tilkynnti nýlega að dregið hefði úr bókunum og meðalfargjöld hefðu lækkað, einkum vegna aukinnar samkeppni.

WOW air sagði að hörð samkeppni væri á milli flugfélaga yfir hafið. Verð hefði lækkað til muna, neytendum til góða. Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi sagði að WOW air hefði oft boðið verð í kringum 100 bandaríkjadollara til og frá Bandaríkjunum.

„Mjög mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir því að hlutverk Íslands sem tengiflugvöllur gæti minnkað verulega á komandi árum nema við bregðumst fljótt og skjótt við, til dæmis með því að bæta við Asíu og fjarlægari áfangastöðum inn í leiðakerfið,“ sagði Svanhvít.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert