Börnin þurfa að njóta vafans

Nemendur í tölvukennslu. Dariusz Leszczynski telur skóla eiga að sleppa …
Nemendur í tölvukennslu. Dariusz Leszczynski telur skóla eiga að sleppa því að nota þráðlaust net þar sem langtímaáhrifin af notkun þess séu ekki þekkt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skólar ættu að sleppa því að nota þráðlaust net og láta landtenginguna duga, þetta segir Dariusz Leszczynski, rannsóknarprófessor við Helsinki-háskóla sem áður starfaði hjá Geislavörnum Finnlands. Þó að engar rannsóknir hafi enn sýnt fram á að heilsufarsógnir fylgi geislun frá þráðlausu neti hafa áhrifin ekki verið nógsamlega rannsökuð til þessa og börnin eigi alltaf að njóta vafans.  

Leszczynski er meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun sem Félag foreldra leikskólabarna stendur fyrir á Hótel Natura á morgun.

„Geislun er vandasamt umræðuefni,“ segir Leszczynski í símaviðtali við mbl.is á leið sinni til Íslands. „Það kemur reglulega upp í umræðunni hvort þráðlaust net, farsímaturnar og farsímar sé hættulegt börnum og fullorðnum.

Fáar rannsóknir og ekki nógu góðar

Við höfum vissar vísbendingar um að geislun frá farsímum kunni að vera hættuleg ef þeir eru notaðir mikið og yfir langt tímabil og þá aukist hættan á að viðkomandi fái heilaæxli.“ Kveðst Leszczynski þar eiga við a.m.k. hálftímanotkun daglega yfir 10-15 ára tímabil.

„Rannsóknir hafa til þessa hins vegar ekki getað sannað þessi tengsl, eða hvort æxlið myndist vegna annarra undirliggjandi þátta og farsímanotkunin ýti þá mögulega undir þá. Við höfum heldur engar sannanir fyrir því að allt sé hættulegt.“

Bendir hann í því sambandi á að geislun frá þráðlausu neti og farsímaturnum sé mun minni en frá farsímanum sjálfum. Þannig geti einu löngu símtali fylgt sambærileg geislun og við ársnotkun á þráðlausu neti.

„Þannig að það er mikill munur þar á,“ segir Leszczynski. Ekki liggi hins vegar enn fyrir hvort notkun á þráðlausu neti eða farsímaturnum sé þar með hættulaus eða hvort hún feli í sér einhverja hættu. Einungis fáar rannsóknir hafi verið unnar til þessa og engin þeirra nái yfir meira en tíu ára tímabil. „Auk þess eru þessar rannsóknir ekki mjög góðar,“ bætir hann við. „Þannig að við vitum ekkert um langtímaáhrifin enn þá.“

Eigum að grípa til varúðarráðstafana núna

Þess vegna þurfi börnin líka að njóta vafans. „Vandinn er þegar málið snýst um börn sem eru að taka út öran vöxt og eru kannski strax um 5-6 ára aldurinn farin að nota þráðlaust net og farsíma. Þá vitum við ekki enn hvaða áhrif það kann að hafa á þau að verða fyrir áhrifum geislunar frá farsímum og þráðlausu neti margar stundir á dag. Við vitum einfaldlega ekki hvað mun gerast þegar þau verða fullorðin. Við vitum ekki hvort það á eftir að koma í ljós þegar þau eru orðin tvítug eða þrítug að þessi geislun í æsku hafi mögulega haft einhverjar afleiðingar í för með sér,“ segir Leszczynski.

„Þess vegna er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og þess vegna tel ég að við eigum að grípa til varúðarráðstafana núna frekar en að gefa okkur núna að allt sé í lagi og komast svo að því seinna meir að geislunin haf haft einhver áhrif.

Tækjanotkun fer líka stöðugt vaxandi og segir Leszczynski suma jafnvel vera í samneyti við síma, tölvu og aðrar græjur allan sólarhringinnn. „Ég mæli þess vegna með því að skólar hætti að nota þráðlaust net,“ segir Leszczynski.  Engin sérstök ástæða sé fyrir skóla að nota þráðlaust net, því jarðtengingin dugi vel til að sinna þörfum kennara og nemenda. „Hún er hraðari, einfaldari og stuðlar ekki að sífellt meiri tækjanotkun með sama hætti. Með þessu móti verða börnin heldur ekki fyrir áhrifum af þeirri geislun sem fylgir þráðlausa netinu átta tíma á dag,“ útskýrir hann.

„Veitum okkur frekar þá hugarró að bíða og sjá hvað rannsóknir vísindamanna munu leiða í ljós.“

Ráðstefnan Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun er haldin á Hótel Natura á morgun klukkan 8:15-16:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert