Gætu þurft að flytja úr bænum

Fjölgun ferðafólks hefur áhrif á húsnæðismarkaðinn í Grundarfirði.
Fjölgun ferðafólks hefur áhrif á húsnæðismarkaðinn í Grundarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sex fjölskyldur í Grundarfirði gætu lent í vandræðum þegar þær missa íbúðir sínar í fjölbýlishúsi í bænum. Mikil húsnæðisekla er í Grundarfirði, meðal annars vegna þess að mörg íbúðarhús eru leigð til ferðamanna. Einhverjir íbúanna í blokkinni sjá ekki annan kost en að flytja úr bænum.

Átta íbúðir eru í blokkinni Sæbóli 33 til 35. Þær voru byggðar af bænum sem félagslegar íbúðir. Óli Jón Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Loftorku, keypti þær fyrir um áratug og hefur leigt út. Hann seldi fyrir nokkru tvær íbúðanna og sagði upp leigu hinna sex um sl. áramót með sex mánaða uppsagnarfresti. „Ég ætla að selja þetta en fyrst þarf ég að tæma íbúðirnar og laga þær. Þær verða settar á almennan markað,“ segir Óli Jón í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Íbúar í vandræðum

Leigjendur sem rætt er við segjast vera í standandi vandræðum vegna húsnæðiseklu í Grundarfirði. Jóhanna Kristín Kristjánsdóttir segist hafa leitað fyrir sér með annað húsnæði, til kaups eða leigu, og fengið þau svör að ekkert væri til. Það sem kynni að vera til sölu væri svo dýrt að þau hjónin réðu ekki við það. Hún segir að einn leigjandinn í blokkinni hafi fengið húsnæði í Stykkishólmi.

Jóhanna Kristín er að verða sjötug og hefur búið í Grundarfirði frá þriggja ára aldri. „Á þessum aldri vill maður ekki láta senda sig út á land. Maðurinn minn er enn verri en ég, hann vill hvergi annars staðar búa, enda er þetta ágætis staður,“ segir hún.

Jóhanna hefur heyrt að aðilar í Grundarfirði hafi í upphafi ætlað að kaupa íbúðirnar og leigja til erlendra ferðamanna. Hún segist þó ekki vita afdrif þess. Segir hún að mörg hús hafi verið tekin undir airbnb og það sé helsta ástæðan fyrir húsnæðisskorti í Grundarfirði.

Málið hefur verið rætt við bæjarstjórann sem hefur tekið málið upp í bæjarstjórn. Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri segir bæinn lítið geta gert.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert