Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli ákæruvaldsins gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, og fleiri aðilum, hefur verið ómerktur af Hæstarétti.
Vísaði rétturinn til þess að sérfróðan meðdómsmann í málinu brysti hæfi, einkum vegna ummæla og athafna á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti eindreginni afstöðu sinni um málefni bankans og stjórnenda hans.
Taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að umrædd tilvik gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að meðdómsmaðurinn hefði verið óhlutdrægur í garð ákærðu við meðferð málsins í héraði, að því er fram kemur í úrskurði réttarins.
Er málinu því vísað aftur til héraðsdóms á ný.
Í málinu hafði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og fjárdrátt. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, hafði þá verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hlutdeild í umboðssvikum og fjárdrætti Hreiðars.
Með dómunum fóru báðir í refsihámark fyrir viðlíka brot vegna fyrri dóma í málum þeirra.
Skúli Þorvaldsson, fjárfestir og stór viðskiptavinur bankans, hafði þá verið dæmdur fyrir gáleysi með því að hafa ekki krafist skýringa á háum upphæðum sem millifærðar voru á reikning félagsins Marple sem var í hans eigu.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, hafði hins vegar verið sýknuð af öllum ákærum í málinu.
Í október 2015 var áformað að kveða upp dóm í málinu, en Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, sagðist þá hafa fengið upplýsingar um meinta hlutdrægni meðdómarans, Ásgeirs Brynjars Torfasonar, og krafðist þess að hann væri úrskurðaður vanhæfur.
Undir kröfu hans tóku verjendur Magnúsar og Guðnýjar, auk verjanda félagsins Marple.
Ásgeir er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.