Rúm 30% telja of fáum veitt hæli

Frá móttöku flóttafólks frá Sýrlandi í Leifsstöð.
Frá móttöku flóttafólks frá Sýrlandi í Leifsstöð. mbl.is/Eggert

30,9% telja of litlum fjölda flóttamanna vera veitt hæli hér á landi, 45% telja fjöldann hæfilegan og 24,1% telja hann of mikinn. Þetta kemur fram í könnun MMR á því hvort Íslendingum finnst fjöldi flóttafólks sem fær hæli á Íslandi vera of mikill, hæfilegur eða of lítill eins og staðan er í dag.

Yngra fólk reyndist líklegra en eldra til að telja að of fáir flóttamenn fái hér hæli. Jafnframt reyndist fólk með hærra menntunarstig líklegra til að telja of fáa flóttamenn fá hæli. Af þeim sem höfðu háskólapróf töldu 50% að of fáir flóttamenn fái hér hæli, samanborið við 26% þeirra með framhaldsskólapróf og 15% grunnskólamenntaðra. Af þeim sem höfðu grunnskólapróf töldu 38% að of margir flóttamenn fái hér hæli, samanborið við 27% þeirra með framhaldsskólapróf og 9% háskólamenntaðra.

Af körlum töldu 28% fjölda flóttamanna sem fær hæli hér á landi vera of mikinn, samanborið við 20% kvenna. Konur voru töluvert líklegri en karlar til að telja að hæfilegur fjöldi flóttamanna fái hér hæli eins og staðan er í dag. 

57% stuðningsfólks Pírata töldu of fáum veitt hæli

Af stuðningsfólki Pírata töldu 57% að of fáum flóttamönnum sé veitt hér hæli, samanborið við 7% stuðningsfólks Framsóknarflokks og 8% Sjálfstæðisflokks. Stuðningsfólk Framsóknar og Sjálfstæðisfólks var líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að telja hæfilegan eða of mikinn fjölda fá hér hæli.

Könnunin var framkvæmd dagana 10. – 15. febrúar 2017 og var heildarfjöldi svarenda 908 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert