Vilji borgarinnar ekki fyrir hendi

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. mbl.is/Eggert

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga um sjötíu þúsund fram til ársins 2040, á við þá sem þegar búa í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ til samans. Þetta er meðal þess sem Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, benti á í fyrirspurn sinni til samgönguráðherra á Alþingi.

Fyrirspurnin laut að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og sagði Bryndís að ekki væri hægt að horfa framhjá því að langflestir íbúar landsins byggju á því svæði, auk þess sem flestir erlendir ferðamenn kæmu þar við.

Á undanförnum árum væru umferðartafir hins vegar orðnar töluverðar.

Spurði hún ráðherra meðal annars hvort hafin væri vinna við þau áhrif sem orkuskipti í samgöngum kynnu að hafa á tekjur ríkissjóðs, og hvaða framtíðarsýn hann hefði á borgarlínuna svokölluðu og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu almennt.

Ekki náðst samkomulag við borgina

Jón Gunnarsson samgönguráðherra sagði sveitarfélög ráða mestu um það hvernig uppbyggingu umferðarmannvirkja yrði hagað í framtíðinni.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu sagði hann hafa aukist og að flöskuhálsinn væri mestur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Í samgönguáætlun væri reiknað með því að leggja þar mislæg gatnamót.

„En vandinn er sá að það hefur ekki náðst samkomulag við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um þetta.“

Sömu sögu væri þá að segja af gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, sem Jón sagði hættulegustu gatnamót landsins.

„Þar virðist vilji borgarinnar heldur ekki vera fyrir hendi.“

„Þyngra en tárum taki“

Jón sagði það slæmt að ekki næðist samstaða um hvernig haga skyldi þessum gatnamótum.

„Ráðstöfunarfé okkar til nýframkvæmda á þessu ári er tíu milljarðar. Þannig að það sjá allir hér hvað er um risavaxið vandamál að ræða. Ef vel tekst til með þessa þætti, sem við erum að láta skoða núna, þá mun það auðvitað stórbæta öryggi á þessum hættulegustu vegaköflum landsins.

Það er þyngra en tárum taki að heyra fréttir af þessum hörmulegu slysum, eins og þeim sem hafa orðið á þessum vegaköflum þar sem akstursstefnur eru ekki aðskildar. En það er ekki nóg að minn vilji standi til þess að greiða fyrir umferð. Höfuðborgin verður að vera þátttakandi og leggja áherslu með sama hætti og við erum að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert