Dæmdur fyrir að eyðileggja friðað hús

Atvikið átti sér stað á Bolungarvík árið 2014.
Atvikið átti sér stað á Bolungarvík árið 2014. Kort/Map.is

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann á áttræðisaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir eignaspjöll, en maðurinn skemmdi hús í Bolungarvík sem var friðað á grundvelli laga um menningarminjar. Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða Bolungarvíkurkaupstað 1.038.552 kr. í bætur.

Héraðssaksóknari ákærði manninn í september í fyrra fyrir stórfelld eignaspjöll, brot gegn hagsmunum almennings og brot á lögum um menningarminjar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 7. júlí 2014 tekið þátt í að brjóta niður þak, veggi og skorstein að hluta til á norðanverðum hluta húsnæðisins að Aðalstræti í Bolungarvík sem er einbýlishús byggt árið 1909 og hafði verið friðað frá 1. janúar 2010 samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar. Við háttsemina var notast við óþekkta vinnuvél og voru afleiðingarnar þær að stórfellt tjón varð á húsnæðinu.

Af hálfu Bolungarvíkurkaupstaðar var þess krafist að maðurinn yrði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 5.551.082 krónur.

Maðurinn fór hins vegar fram á sýknu. 

Óttaðist um samborgara sína

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að hafa tekið þátt í að brjóta niður þak, veggi og skorstein að hluta á húsinu að Aðalstræti í Bolungarvík. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa einn skemmt húsið á þann hátt sem lýst er í ákæru en krafðist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Þá kröfu byggði maðurinn á því að ósannað væri að húsið hefði verið orðið hundrað ára gamalt þegar atvik gerðust og félli það því ekki undir 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar 177. gr. almennra hegningarlaga. Einnig byggði maðurinn á því að húsið hefði verið ónýtt og því verðlaust, og því bæri að sýkna hann af broti gegn 257. gr. almennra hegningarlaga, og loks að sýkna bæri hann vegna neyðarréttar, sbr. 13. gr. sömu laga, en maðurinn óttaðist verulega um þá samborgara sína sem þarna fóru um.

Í dómi héraðsdóms segir, að það liggi fyrir að slys hafi orðið í nágrenni hússins, hins vegar sé ekki fullyrt í dómnum að þessum aðstæðum hafi verið um að kenna. „Þá má ætla að staðsetning hússins geti skapað hættu fyrir vegfarendur en ekkert liggur fyrir um að á þeim tíma sem verkið var unnið hafi verið sérstök hætta yfirvofandi. Þá er ljóst að verkið, eins og það var unnið, var ekki til þess fallið að varna því varanlega að einstaklingar sem færu gangandi fram hjá húsinu yrðu ekki fyrir tjóni vegna umferðar bifreiða eða tryggja að bætt yrði úr þessum aðstæðum til að tryggja öryggi vegfarenda. Með hliðsjón af framangreindu verður því ekki talið að skilyrði séu til að sýkna ákærða af háttseminni á grundvelli neyðarréttar.“

Vann verkið af óeigingjörnum hvötum en mátti vita að húsið væri friðað

Maðurinn braut niður eitt horn hússins og olli þar með umtalsverðu tjóni á því að því er segir í dómi héraðsdóms. Með verknaði sínum olli hann því eiganda hússins fjárhagstjóni. Með hliðsjón af framangreindu er það mat dómsins að tjónið hafi verið svo yfirgripsmikið að eignaspjöllin teljist vera stórfelld.

Maðurinn bar um það í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi, þegar atvik gerðust, ekki vitað að húsið væri friðað og dró í efa að liðin hafi verið hundrað ár frá því að það var reist. Héraðsdómur segir hins vegar að maðurinn hafi mátt vita að það hefði verið friðað þegar atvik gerðust. 

Maðurinn, sem er fæddur árið 1939, hefur ekki verið dæmdur til refsingar áður og var litið til þess við ákvörðun refsingar.

„Þá lítur dómurinn til þess ákærða til málsbóta, að hann vann verkið af óeigingjörnum hvötum og taldi sig vera að verja líf og heilsu aldraðra og veikra samborgara sinna og reyna að knýja fram breytingar á aðstæðum innan sveitarfélagsins sem hann taldi hættulegar.“ 

Loks lítur dómurinn til aldurs mannsins og þess tjóns sem háttsemi hans olli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert