Erla Bolladóttir: Ekki skilyrði til endurupptöku

Erla Bolladóttir við réttarhöldin á áttunda áratugnum.
Erla Bolladóttir við réttarhöldin á áttunda áratugnum.

Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu að Erla Bolladóttir hefði ekki sýnt fram á það að skilyrði væru til endurupptöku máls hennar.

Erla var á sínum tíma m.a. dæmd í þriggja ára fangelsi, m.a. fyrir að bera þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum. Erla var einnig dæmd fyrir fjársvik og önnur tengd brot en ekki var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar vegna þeirra brota.

Í úrskurði nefndarinnar, sem birtur var í gær, segir m.a. að Erla hafi eingöngu verið sakfelld fyrir rangar sakargiftir í samræmi við ákæru dagsetta 16. mars 1977 en sýknuð fyrir Hæstarétti af allri aðild að refsiverðri háttsemi í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar.

Þegar Erla bar rangar sakir á tvo nafngreinda menn í fyrsta sinn 23. janúar 1976 hafði hún verið frjáls ferða sinna í 34 daga, frá 21. desember 1975 til og með 23. janúar 1976. Þegar hún bar sakir á tvo aðra menn, 3. febrúar 1976, hafði hún verið frjáls ferða sinna í 44 daga. Engin gögn liggi fyrir um að Erla hafi verið knúin eða hvött til þessara röngu sakargifta af rannsakendum eða öðrum. Röksemdir um áhrif einangrunar og skort á aðgangi að verjanda geti því ekki átt við eða stutt endurupptökubeiðni.

Er það mat endurupptökunefndar að Erla hafi ekki sýnt fram á að skilyrði laga um meðferð sakamála til endurupptöku séu uppfyllt.

Í úrskurði endurupptökunefndar kemur jafnframt fram að hún telji þóknun talmanns Erlu, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, hæfilega ákveðna 10.334.900 krónur. Er sú þóknun greidd úr ríkissjóði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert