Sævar Marinó Ciesielski: Harðneskjuleg einangrun hafði áhrif

Sævar M, Ciesielski fór tvisvar fram á endurupptöku máls síns …
Sævar M, Ciesielski fór tvisvar fram á endurupptöku máls síns fyrir Hæstarétti á tíunda áratugnum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Endurupptökunefnd telur að fullnægt sé skilyrðum laga um að dómur yfir Sævari Marinó Ciesielski, hvað varðar sakfellingu fyrir tvö manndráp af gáleysi, sé tekinn til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Hæstarétti.

Nefndin féllst hins vegar ekki á að sakfelling Sævars fyrir rangar sakargiftir yrði tekin til meðferðar að nýju.

Sævar var árið 1980 í Hæstarétti dæmdur fyrir að hafa, ásamt öðrum, orðið Guðmundi Einarssyni að bana að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði 27. janúar 1974 og fyrir að hafa, ásamt öðrum, aðfaranótt 20. nóvember 1974 orðið Geirfinni Einarssyni að bana í Dráttarbrautinni í Keflavík.

Þá var Sævar dæmdur fyrir að hafa á árinu 1976, ásamt öðrum, gerst sekur um rangar sakargiftir með því að bera á fjóra nafngreinda menn, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns. Sævar var jafnframt dæmdur fyrir þjófnaði, áfengislagabrot, skjalafals, fjársvik og fíkniefnalagabrot. Ekki var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar hvað það varðaði. Sævar var dæmdur í 17 ára óskilorðsbundið fangelsi. Erfingjar hans fóru fram á endurupptöku dómsins, en Sævar lést árið 2011.

Í úrskurði endurupptökunefndar segir m.a. að vissulega hafi legið fyrir ýmsar sterkar vísbendingar um að framburðir Sævars og annarra dómfelldu um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns Einarssonar hafi átt við rök að styðjast. Hafa verði í huga að almennt séð verði að telja ólíklegt að svo margir einstaklingar játi ranglega aðild að atlögu að manni sem leitt hafi hann til dauða og að tvö vitni beri ranglega á sama veg.

En endurupptökunefnd telur að í ljósi þess að Sævar hvarf fyrir dómi frá játningu sinni hafi skort á að hann hafi fengið að njóta þess vafa sem ónákvæm skráning, þess sem gerðist í yfirheyrslum yfir dómfelldu öllum hjá lögreglu og skortur á skýrslum um fjölmargar yfirheyrslur, viðtöl og samprófanir, skapaði um rannsóknaraðferðir og um þróun framburða. Fjölmargar og ósamrýmanlegar frásagnir dómfelldu og vitna af meintri atburðarás og fjöldi einstaklinga og bifreiða sem nefnd voru til sögunnar, hafi gefið tilefni til að draga trúverðugleika framburða þeirra í heild í efa.

Þá þykja sterkar vísbendingar vera fram komnar um að framburðir einstaka dómfelldu og vitna í mörgum og löngum yfirheyrslum hafi, fyrir tilstuðlan rannsóknarmanna, litað framburði annarra dómfelldu og ásamt harðneskjulegri einangrun haft áhrif á framburði þeirra allra.

Endurkröfunefnd ákvað að þóknun Lúðvíks Bergvinssonar héraðsdómslögmanns, sem var talsmaður erfingja Sævars, skyldi vera 12.276.000 krónur og greiðast úr ríkissjóði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert