Vandamálið er hinn íslenski útveggur

Mygla hefur verið vandamál í veggjum Landspítalans.
Mygla hefur verið vandamál í veggjum Landspítalans. mbl.is/Eggert

Myglusveppur hefur leikið Íslendinga grátt árum saman. Vandamálið að mati sérfræðinga er séríslensk byggingaraðferð við einangrun í veggjum.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að Kársnesskóli hefði flutt kennslu vegna myglu í skólabyggingunni. Mygla hefur einnig fundist í veggjum Landspítalans, í velferðarráðuneytinu, Landsbankanum og Listaháskóla Íslands, svo dæmi séu tekin. Þá hefur mygla fundist í ótalmörgu íbúðarhúsnæði.

„Við teljum að mygla finnist í hverju einasta húsi á Íslandi. Spurningin er bara hversu mikil og hvenær hún er skaðleg,“ segir Ríkharður Kristjánsson, byggingarfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Hann hefur komið að málum tengdum myglu fyrir verkfræðistofuna og segir að á fimm ára tímabili hafi Efla skoðað um þúsund hús vegna myglu.

Hann segir að viðgerðarkostnaður á síðustu tveimur árum hlaupi á tugum milljarða. „Á tveimur árum er viðgerðarkostnaðurinn meira en vegna Suðurlandsskjálftanna beggja, eða um 20 milljarðar.“

Séríslensk byggingaraðferð

„Það er bara eitt sem veldur þessu og það er raki í veggjum. Hann getur hins vegar átt sér margar orsakir. Það sem við köllum hinn íslenska útvegg er steyptur veggur sem er einangraður að innan, ýmist með plasti eða með steinull og gifsi. Mygluvandamálið er ekki séríslenskt fyrirbæri en hinn íslenski útveggur er það,“ segir Ríkharður.

Hann segir íslenska útvegginn hafa marga galla en þar megi helst nefna að steypan sé notuð sem veðurvörn þannig ef vatn leki inn á milli og fari bak við einangrunina fari að mygla við útvegginn. Þá segir hann það íslenskt fyrirbæri að einangra hús að innan frekar en að utan.

„Í Kársnesskóla voru lagnirnar farnar að mygla og þegar menn fóru að brjóta veggina sáu menn hvað þetta var alvarlegt. Veggurinn getur svo auðveldlega falið allt mögulegt,“ segir Ríkharður.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, tekur undir með Ríkharði og segir að vandamálið sé séríslenskt. „Þessi veggur er byggður upp þannig að þú ert með steyptan vegg og svo einangra menn að innan. Erlendis er þetta nánast ekki þekkt; þar einangra menn nánast alltaf hús að utan,“ segir Björn.

Byggingarlögregla ekki til

Málmgrindir hafa einnig verið notaðar við byggingu húsa hérlendis. Til þess að spara pláss voru lagnir settar inn í málmgrindina. Síðan settu menn rakavörn og gifs. Hefur þetta valdið því að þegar kólnar myndast raki sem fer út um götin á rakavörninni og þegar frýs ryðgar málmgrindin í sundur. Ríkharður segir þetta vandamál þekkt og margoft hafi verið reynt að stöðva slíkar framkvæmdir.

„Við erum búin að benda á þetta margoft, við sem erum að fást við myglu. Við skrifuðum bréf sem við sendum til ríkisstofnana og fórum fram á það við Mannvirkjastofnun að hún bannaði þessa aðferð í bili á meðan verið væri að rannsaka þetta. Það var ekki hægt. Því miður er engin byggingarlögregla til í dag. Hún dó þegar Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður.“

Verkfræðilegir glæpir

„Hönnuðurinn er sá sem ákveður hvar á að einangra. Hann ákveður uppbygginguna á veggjunum en það dettur engum í hug að gera hönnuðina ábyrga fyrir þessu,“ segir Ríkharður og minnist þess þegar vatnsleki kom upp í veggjum á byggingum í Breiðholti og Árbæ vegna hönnunargalla. „Þá kom í ljós að þessir veggir voru bara algjör hönnunarmistök. Þetta var bara verkfræðilegur glæpur.“

Hann segir meira inngrip hafa verið á árum áður, en nú veigri menn sér við því að taka ábyrgð. „Þegar opinberir aðilar vita að hlutirnir eru að fara í vitleysa verða þeir að grípa inn í en þeir veigra sér við því, því þá eru þeir farnir að taka einhverja ábyrgð. Þeir vísa bara í að hönnuðir eigi að hanna hús og byggingaraðilar að byggja.“

Samhæfð gögn skortir

Engin ein stofnun heldur utan um gögn um myglu á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Ríkiseigna, sem fara með helming fasteigna í eigu ríkisins, hafa komið upp 14 myglutilfelli síðan 2011 en ómögulegt er að segja um hús í einkaeigu. Verkfræðistofan Efla og Mannvirkjastofnun fóru nýlega í samstarf um að samræma gögn og vinna sameiginlega úr þeim. Vænta þau þess að sú vinna hefjist fljótlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert