Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir mikilvægt að skapa traust bankakerfi á Íslandi þar sem almenningur beri ekki ábyrgð á áhættusamri fjárfestingu fjárfestingafyrirtækja. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir drög að uppfærðri eigendastefnu fjármálafyrirtækja gefa til kynna að horft sé til sama bankakerfis og fyrir hrun.
Þetta kom fram í sérstakri umræðu á Alþingi í dag þar sem Oddný óskaði eftir frekari upplýsingum frá Benedikt um eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki en drög að uppfærðri stefnu þess efnis voru birt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins 10. febrúar síðastliðinn.
Samkvæmt drögunum stefnir fjármála- og efnahagsráðuneytið að því að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóði Austurlands en ríkissjóður skal áfram eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum.
Oddný sagði drögin gefa til kynna að „við horfum á sama bankakerfið og fyrir hrun,“ en að þörf væri á að koma upp regluverki og aðhaldi í samræmi við alþjóðlegar kröfur.
Þá lagði Oddný til að starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka yrði aðskilin og sagði að ríkið ætti „alls ekki“ að selja bankana heldur nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið.
Benedikt sagði ósennilegt að skynsamlegt væri að sundra bönkunum, því bankakerfið væri nú þegar stórt miðað við íslenska hagkerfið. Hann sagði þá engin áform um að breyta uppbyggingu bankakerfisins í megindráttum en benti á að Alþingi gæti sett reglur um starfsemi bankanna, óháð eignaraðild.
Í innleggi sínu í umræðuna sagði Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði einstakar þar sem eignarhald ríkis á bönkunum væri með því umfangsmesta sem þekkist í Evrópu.
Lilja kallaði því eftir að settur yrði á laggirnar hópur af sérfræðingum sem ynni náið með þinginu um framtíðarmótun á „þessu mikilvæga máli“ því stjórnvöld væru „í dauðafæri til að fara í heildarendurskoðun [á bankakerfinu]“.
Þá kölluðu fleiri þingmenn eftir því að mögulegur aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka yrði skoðaður til hlítar og sagði Benedikt mikilvægt að taka þá umræðu til enda á Alþingi.