Kennaraskortur fyrirsjáanlegur

Kennaranám var lengt fyrir átta árum.
Kennaranám var lengt fyrir átta árum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Stjórnvöld eru hvött til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir aðsteðjandi kennaraskort á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar; Kostnaður og skilvirkni kennaramenntunar. 

Þar kemur fram að frá árinu 2009, þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna. Skólarnir ná ekki að brautskrá nógu marga til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni.

Talið er að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara séu við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það bendir til að kennaraskortur verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur sé einnig mikilvægt að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar.

Einnig kemur fram að ekki hafi verið þróaðir opinberir mælikvarðar til að meta kostnað og skilvirkni háskólakennslu, þrátt fyrir hvatningu Ríkisendurskoðunar þar um og er mennta- og menningarmálaráðuneytið hvatt til að þróa slíka mælikvarða.

Árið 2015 kostaði hver brautskráður nemandi, sem lauk  fimm ára kennsluréttindanámi á tilskildum námshraða, ríkissjóð að lágmarki um 4,3 milljónir króna. Raunkostnaður eykst þó vegna nemenda sem ljúka námi á lengri tíma og vegna þeirra sem hætta námi. Því telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að auka skilvirkni kennaradeildanna með því að draga úr brotthvarfi nemenda og auka námshraða þeirra.

Ef litið er til endurkomu- og brautskráningarhlutfalls kennaranema við skólana tvo á undanförnum árum virðist hlutfallið hærra hjá Háskólanum á Akureyri og telst hann því skilvirkari í starfi sínu en Háskóli Íslands. Kennaranám við Háskóla Íslands virðist á hinn bóginn heldur ódýrara en við Háskólann á Akureyri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka