Stúlkan orðin grá og föl í framan

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stúlkubarn var hætt komið í gær þegar útblástur fór inn í bifreiðina sem það sat í vegna þess að snjór hafði stíflað púströrið á henni. Móðir barnsins, Kristín Hafsteinsdóttir, segir frá þessu á Facebook í gærkveldi en atvikið átti sér stað í Reykjavík þegar faðir barnsins var að moka frá bifreiðinni til þess að geta sótt Kristínu í vinnuna.

„Í dag hefði Lovísa auðveldlega getað dáið!“ segir Kristín í stöðufærslunni. „Maðurinn minn var að fara með krakkana út í bíl svo hann gæti sótt mig í vinnuna. Hann setur Lovísu í bílstólinn og startar bílnum á meðan strákurinn okkar er úti með honum að moka frá bílnum. Lovísa fer að gráta svo maðurinn minn drífur sig að moka og lítur svo á Lovísu. Hún er grafkyrr í bílstólnum og með lokuð augun svo hann heldur að hún sé sofnuð.“

Þegar maðurinn hennar opnaði síðan bifreiðina til þess að hleypa syni sínum inn í hana kom útblásturslykt á móti honum. „Þá var snjórinn búinn að loka fyrir útblásturinn á pústinu svo allt fór inn í bílinn. Hann drífur sig að Lovísu þar sem hún er orðin grá og föl í framan. Rífur hana úr bílstólnum og blæs framan í hana þar til hún rankar við sér. Hún er í góðu lagi en passið ykkur á þessu!“

Kristín segir síðar á Facebook að þau hafi látið kíkja á Lovísu og hún hafi verið í góðu lagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka