„Það er að skapast neyðarástand“

„Það vilja allir að vera með góða kennara fyrir börnin …
„Það vilja allir að vera með góða kennara fyrir börnin sín og það er krafa frá samfélaginu um að það séu menntaðir kennarar, þannig að nú þurfa menntamálayfirvöld að gera eitthvað í málinu.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýútkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar á Íslandi leiðir í ljós fyrirsjáanlegan kennaraskort á landinu. Í skýrslunni kemur fram að skráðum nemendum við kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri hafi fækkað um 35% frá árinu 2009 og að 51% færri nýnemar voru skráðir í deildirnar haustið 2016 samanborið við haustið 2009.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs við Háskóla Íslands, segir niðurstöður skýrslunnar ekki koma á óvart en hún gleðst yfir því að ábendingarnar komi fram.

„Þetta er raunverulega bara það sem við erum búin að vera að benda á að undanförnu. Það er mjög alvarleg staða uppi og ef ekki útskrifast fleiri kennarar þá verður kennaraskortur á næstu árum,“ segir Jóhanna og vísar í nýlega rannsókn eftir Stefán Hrafn Jónsson prófessor sem sýndi að allt að 50% aukning á útskriftum kennara næstu árin myndi ekki duga til að viðhalda kennarastéttinni.

Jóhanna Einarsdóttir er sviðsstjóri menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Jóhanna Einarsdóttir er sviðsstjóri menntavísindasviðs Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samfélagslegur vandi

„Þetta er samfélagslegur vandi sem þarf að bregðast við. Það eru stórir árgangar kennara að fara á eftirlaun og brautskráning nýrra kennara hefur ekki haldið í við þá þróun. […] Valmöguleikar ungs fólks í dag eru svo margir. Það er svo margt og fjölbreytt nám í boði núna en þegar þeir kennarar sem eru að fara á eftirlaun á næstu árum voru að fara í kennaranám var svo fátt í boði þannig að miklu fleiri sáu þetta sem áhugaverðan valkost.“

Jóhanna segir boltann í höndum menntamálayfirvalda og að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi.

„Vilji er allt sem þarf. Stjórnvöld þurfa að grípa inn í því það er auðvitað að skapast neyðarástand. Í nágrannalöndunum hefur ýmislegt verið gert; þar eru til dæmis veittir styrkir til þeirra sem fara í kennaranám, það er líka hægt að hugsa sér einhverjar ívilnanir í sambandi við námslánakerfið eða stuðning við nýútskrifaða kennara.“

Skráningar nýnema í kennaranám eru þó aðeins hluti vandans því samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er talið að einungis um helmingur menntaðra grunnskólakennara starfi við kennslu í grunnskólum landsins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ljóst sé „að launa- og …
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ljóst sé „að launa- og starfskjör kennara geta haft veruleg áhrif á aðsókn í námið“ en nú síðast í nóvember börðust grunnskólakennarar fyrir bættum kjörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að erfitt er að fullyrða um ástæður minnkandi aðsóknar í kennaranám en þó er talið ljóst „að launa- og starfskjör kennara geta haft veruleg áhrif á aðsókn í námið“ og að lenging kennaranáms frá þremur í fimm ár hafi einnig haft sitt að segja. Þá hefur efnahagsástandið áhrif á aðsókn í háskólanám almennt.

„Síðustu ár hefur efnahagsástand hér á landi farið batnandi og samhliða því hefur dregið verulega úr nýskráningum í Háskóla Íslands.“

Aðeins þriðjungur leikskólakennarar

Ástandið er þegar orðið erfitt í leikskólum landsins en árið 2015 var aðeins um þriðjungur starfsmanna við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum árið 2015 menntaðir leikskólakennarar, þrátt fyrir að  lögum samkvæmt skuli „að lágmarki 2/3 stöðugilda […] teljast til stöðugilda leikskólakennara.“

„Það má alveg segja að við hefðum getað sagt okkur sjálf [að þetta myndi gerast]. Sveitarfélögin hafa byggt upp leikskóla því það er auðvitað krafa samfélagsins að við höfum leikskóla fyrir öll börn en um leið hefur ekki verið hugað að þessum innviðum. Það þarf auðvitað að mennta fólk, það er ekki forsvaranlegt að reka leikskóla sem er kannski með einn eða jafnvel engan fagmann,“ segir Jóhanna en hún telur að ekki sé langt í að grunnskólakerfi landsins finni fyrir skorti á kennurum.

Árið 2015 var aðeins þriðjungur starfsmanna við kennslu, umönnun og …
Árið 2015 var aðeins þriðjungur starfsmanna við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum menntaðir leikskólakennarar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við erum auðvitað þegar í vanda í leikskólanum og við förum að finna fyrir þessu á næstu árum með grunnskólann. Það klingja bjöllur. Það vilja allir vera með góða kennara fyrir börnin sín og það er krafa frá samfélaginu um að það séu menntaðir kennarar [við störf], þannig að nú þurfa menntamálayfirvöld að gera eitthvað í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka