Húsnæðismál brenna á flestum þeirra sem hér fá alþjóðlega vernd og rætt er við í nýrri skýrslu sem Alþjóðamálastofnun hefur gefið út. „Þegar mál mitt hlaut jákvæða niðurstöðu var mér bókstaflega hent út á götu eða í gistiskýlið fyrir heimilislausa og ég var bara beðinn um að finna mér húsnæði. Þetta var það sem mér reyndist erfitt,“ segir maður sem hingað kom á eigin vegum.
Viðmælandinn sagðist ekki hafa átt kost á að sækja um dvalarleyfi fyrir eiginkonu sína og börn á grundvelli fjölskyldusameiningar nema að geta sýnt fram á að fjölskyldan hefði stað til að búa á.
Hann hafi því strax unnið í því að finna húsnæði fyrir fjölskylduna en það gekk mjög erfiðlega um tíma. Hann fékk enga aðstoð við húsnæðisleit og sagði að þar sem hann var útlendingur vildu Íslendingar síður leigja honum húsnæði þar sem þeir vissu engin deili á honum.
Sömuleiðis gat hann, í ljósi stöðu sinnar sem flóttamaður, ekki útvegað skrifleg meðmæli, sakavottorð og launaseðla. Loks var alls staðar krafist tryggingaupphæðar sem jafngildir þriggja mánaða leigu sem hann hafði ekki efni á að greiða. Þá upphæð gat hann þó sótt til félagsþjónustunnar.
Þeir sem rætt var við í skýrslunni og komu til landsins sem kvótaflóttafólk var úthlutað húsnæði strax við komuna til landsins og voru flestir ánægðir með húsnæðið.
Þátttakendur sem höfðu komið á eigin vegum og sótt um hæli á Íslandi þurftu aftur á móti sjálfir að útvega sér húsnæði eftir að umsókn þeirra um hæli var samþykkt. Að sögn þátttakenda varð aðgengi að húsnæði verra eftir að koma ferðamanna til Íslands jókst. Þeim sem komið höfðu fyrir tíma uppgangs í ferðaþjónustu gekk yfirleitt vel að finna húsnæði, en tveir viðmælendur, sem höfðu báðir búið á Íslandi í á annað ár, lýstu því að erfiðlega hafi gengið að finna húsnæði.
Þetta er meðal þess sem fjallað er um skýrslunni sem kynnt var í Norræna húsinu í morgun. Meðal þeirra sem komu fram á fundinum var Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra.
Hún segir margt af því sem fram komi í skýrslunni áhugavert og um leið gott innlegg í áframhaldandi vinnu á þessu sviði á vettvangi dómsmálaráðuneytisins. Mikið álag hafi verið á Útlendingastofnun og fleiri stofnunum vegna fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna sem starfsmenn hafa brugðist við með útsjónarsemi, hæfni og skipulagi.
Í skýrslunni kemur fram að niðurstöður könnunarinnar sjálfrar hafi því miður takmarkað gildi sem mælikvarði á stöðu og líðan flóttafólks á Íslandi sökum lélegs svarhlutfalls. Einungis 15% svarhlutfall náðist þrátt fyrir fjölbreyttar aðferðir til gagnaöflunar. Helsta ástæðan virtist vera sú að flóttafólk veigraði sér við að svara könnuninni af ótta við að svör þeirra færu lengra eða væru notuð gegn þeim. Eingöngu ætti því að skoða niðurstöðurnar sem vísbendingar um raunverulega stöðu og forðast að alhæfa um flóttafólk í heild sinni út frá þeim.
Laufey segir ástæðu til þess að kanna hvers vegna svarhlutfall í skoðanakönnun á meðal flóttafólks sem fengið hefur dvalarleyfi á Íslandi síðustu 12 ár er jafnlágt og raun ber vitni. Eins það hvers vegna það var erfiðleikum háð að ná tali af fólki um upplifun þess.
Hún segir að það sé vilji ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra að innflytjendum verði auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.
„Mannúðarsjónarmið skulu jafnframt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og afgreiðslutími styttur eins og hægt er án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð,“ segir Laufey.
„Dómsmálaráðherra hefur þegar stigið skref til þess að tryggja markmið nýrrar ríkisstjórnar og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um hæli frá öruggum ríkjum. Til þess að Íslendingar geti aðstoðað þá sem eru í neyð verður að tryggja að það sé ekki gengið á þá vernd án ástæðu,“ segir Laufey og bætir við að langflestir þeirra rúmlega 1.100 einstaklinga sem sóttu um hæli hér í fyrra komi frá öruggum ríkjum.
Þótt viðmælendur þeirra sem unnu rannsóknina væru sammála um að aðgengi að túlkum væri gott voru þeir misánægðir með einstaka túlka. Dæmi voru um að túlkurinn talaði ekki góða íslensku og einnig höfðu komið upp atvik þar sem túlkurinn virti ekki trúnað.
Viðmælendur lýstu því einnig að þeim þætti oft óþægilegt að nota túlk sem þeir þekktu. Sumir hópar innflytjenda eru mjög fámennir og návígið því mikið. Í heimsóknum til lækna, eða þegar nýta þurfti aðra opinbera þjónustu sem krafðist þess að persónuleg málefni voru rædd, gat verið erfitt að þurfa að reiða sig á túlk sem viðkomandi þekkti vel. Af þeim sökum reyndu sumir að bjarga sér sjálfir á íslensku án túlks, nota ensku, eða óskuðu eftir túlki sem gæti þýtt úr íslensku yfir á ensku.
Að sögn þátttakenda fær flóttafólk almennt of litla íslenskukennslu og sömuleiðis þótti kennslan vera ómarkviss. Ein konan lýsti því að hafa lokið þremur stigum í íslensku í boði hins opinbera. Þegar hún hugðist halda áfram var henni tjáð að hún yrði sjálf að fjármagna frekara íslenskunám. Þar sem hún hafði ekki efni á að greiða fyrir íslenskunám, og félagsþjónustan greiddi ekki fyrir slík námskeið heldur, fór því svo að hún lauk ekki fleiri stigum í íslensku.
Að hennar sögn þyrfti að bjóða upp á mun umfangsmeira íslenskunám til að fólk nái tökum á tungumálinu, sér í lagi fyrir fólk sem kemur úr allt öðru málumhverfi.
Viðmælendur voru almennt sammála um að kunnátta í íslensku væri lykillinn að þátttöku í samfélaginu og aðlögun einstaklinga og þess vegna væri nauðsynlegt að bjóða upp á fleiri námskeið, fólki að kostnaðarlausu.
„Fólk eins og við, við erum flóttamenn, og við eigum ekki pening til að læra tungumálið, en hvernig eigum við að komast áfram ef við kunnum ekki tungumálið?“ er haft eftir manni sem kom hingað til lands á eigin vegum.
Fimm þátttakendur fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Allir bjuggu þeir við mjög bága fjárhagslega stöðu og töldu upphæðina sem þeir fengu ekki duga til framfærslu. Þegar þeir höfðu greitt húsaleigu væri mjög lítið eftir til að kaupa mat og aðra nauðsynjavöru.
Hjá þremur var framfærsla Reykjavíkurborgar skert og fyrir því voru ýmsar ástæður. Til að fá fulla framfærslu þurfa einstaklingar að vera virkir í atvinnuleit og sækja um fjögur auglýst störf í hverjum mánuði. Þetta reyndist viðmælendum erfitt vegna tungumálaerfiðleika og vegna þess að þeir höfðu litla reynslu í að sækja um störf og fengu, að sögn, engan stuðning við slíkt.
Þeir bentu enn fremur á að erfitt væri að finna fjögur störf í hverjum mánuði sem hægt væri að sækja um, þar sem fá störf væru í boði fyrir fólk sem talaði hvorki ensku né íslensku.
Einnig kom fram að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skertist ef fólk deildi húsnæði með öðrum fullorðnum einstaklingi. Vegna þess hve erfiðlega gekk að finna húsnæði deildu fjórir viðmælendur íbúð með öðrum og fengu þar af leiðandi skerta grunnframfærslu.
Loks hafði einn þátttakandi lent í fjárhagsvanda vegna þess að tekjur sem viðkomandi hafði af launaðri vinnu í undangengnum mánuði komu til frádráttar. Þessi viðmælandi kvaðst hafa ráðið sig í ósérhæft starf á lágum launum eftir að starfsfólk félagsþjónustunnar hafði lagt ríka áherslu á að hann yrði að komast út á vinnumarkaðinn.
Svo fór þó að viðmælandinn treysti sér ekki til að stunda þessa vinnu sökum vanlíðanar og sagði starfi sínu lausu. Atvinnutekjur ollu því síðan að viðkomandi átti ekki rétt á fullri fjárhagsaðstoð.
Nokkrir viðmælendur höfðu þar af leiðandi mjög lága fjárhæð til framfærslu. Staða þeirra var ekki síst erfið í ljósi þess að dýrt er að hefja nýtt líf frá grunni og enginn hafði bakland eða stuðning sem hann gat leitað í.
„Það er líka fáránlegt að setja okkur flóttamennina undir sama hatt og venjulegt fólk sem fær félagsþjónustu. Það er ekki rétt. Ef þú ferð heim til okkar flóttamannanna þá sérðu að það vantar sjónvarp og kannski ísskáp en það er ekki hægt að kaupa neitt því við eigum engan pening. Við erum nýkomin og þurfum því ýmislegt sem venjulegt fólk er með,“ segir einn viðmælenda sem fékk dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Sökum bágrar fjárhagslegrar stöðu kom það fyrir að viðmælendur áttu ekki fyrir mat. Þegar þeir ræddu ástand sitt við starfsfólk félagsþjónustunnar var þeim bent á mataraðstoð Fjölskylduhjálpar. Þangað höfðu nokkrir viðmælenda leitað reglulega til að fá matargjafir en lýstu því hve niðurlægjandi þeim þætti að vera í þeirri stöðu að þurfa að „betla“ mat.
Greint var frá því að maturinn sem þeim bauðst væri þeim framandi og oft ekki í samræmi við trúarhefðir þeirra. Gæði matvælanna væru oft lítil þar sem flest voru komin langt fram yfir síðasta söludag.
Viðhorfin sem þau mættu frá starfsfólki Fjölskylduhjálpar væru enn fremur neikvæð og sumir lýstu því að illa hefði verið komið fram við þá.