Andlát: Jórunn Viðar tónskáld

Jórunn Viðar
Jórunn Viðar

Jórunn Viðar tónskáld lést í gær, mánudaginn 27. febrúar, í Reykjavík, 98 ára að aldri. Jórunn fæddist 7. desember 1918 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Einar Viðar, bankaritari og söngvari, og Katrín Viðar, píanókennari og verslunareigandi.

Jórunn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937. Hún lærði á píanó hjá móður sinni Katrínu Viðar, Páli Ísólfssyni og Árna Kristjánssyni og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík átján ára gömul árið 1936. Á árunum 1937-1939 stundaði Jórunn framhaldsnám í píanóleik við Hochschule für Musik í Berlín. Á stríðsárunum, 1943-1945,var Jórunn í Juilliard School of Music í New York og lærði þar tónsmíðar.

Að loknu námi sneri Jórunn aftur heim til Íslands en hún hefur sett sitt mark á íslenskt tónlistarlíf æ síðan. Jórunn samdi tónlistina við fyrsta íslenska ballettinn, Eld, og fyrstu íslensku kvikmyndatónlistina við myndina Síðasti bærinn í dalnum. Þá samdi Jórunn ótal sönglaga sem eru mörg afar vinsæl meðal þjóðarinnar eins og Jól og Það á að gefa börnum brauð.

Jórunn kenndi í Söngskólanum í Reykjavík og vann mikið með Þuríði Pálsdóttur söngkonu. Hún spilaði oft undir á píanó með Þuríði en saman voru þær einnig með barnatíma í útvarpinu í mörg ár. Jórunn var fyrsta og eina konan í Tónskáldafélagi Íslands í um tvo áratugi. Hún hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004 og heiðurslaun listamanna frá Alþingi oftar en einu sinni.

Tónlist Jórunnar hefur tekið sér bólfestu í hjarta íslensku þjóðarinnar og naut Jórunn mikillar virðingar meðal starfsbræðra sinna.

Jórunn giftist Lárusi Fjeldsted forstjóra (f. 1918, d. 1985). Þau eignuðust þrjú börn, Lárus f. 1942, Katrínu f. 1946 og Lovísu f. 1951.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert