Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hóf síðastliðinn föstudag að leggja dagsektir á Útvarp Sögu að upphæð 75 þúsund krónur fyrir hvern dag sem líður þar til félagið lætur af útsendingum á tíðninni 102,1 MHz.
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, segist í samtali við blaðið enga leið sjá til þess að halda útvarpsstöðinni gangandi við þessi skilyrði. „Það er enginn rekstur sem þolir þetta, en í mínum huga eru skilaboðin skýr – það er verið að ganga frá okkur endanlega.“
Seint á seinasta ári hafnaði PFS kröfu stöðvarinnar um að fá varanlega heimild til notkunar á tíðninni 102,1 til viðbótar við þá tíðni sem félagið hefur nú þegar heimild til að nota á höfuðborgarsvæðinu.