Hjallastefnan hefur ekki í hyggju að þvo sjálf þvott fyrir fólk með nýrri þvottaþjónustu heldur munu þvottahús sjá um þjónustuna. Hjallastefnan verður aðeins milliliður í þeim efnum. Þetta segir Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, á Facebook þar sem hún bregst við gagnrýni frá Nichole Leigh Mosty, þingmanni Bjartrar framtíðar, sem sagði á Alþingi í dag að hún teldi ekki að menntastofnanir ættu að sjá um heimilisstörf.
Frétt mbl.is: Gagnrýnir þvottaþjónustu Hjallastefnunnar
Margrét Pála segir að þarna sé um misskilning að ræða sem virðist kominn til vegna fyrirsagnar á frétt mbl.is í gær um að Hjallastefnan ætlaði að hefja þvottaþjónustu. Misskilja mætti fréttina ef aðeins fyrirsögnin væri lesin en ekki fréttin.
„Þar kemur skýrt fram að þvottahús sjái um þjónustuna rétt eins og veitingahús sér um að elda mat sem foreldrar geta sótt hjá okkur. Okkar framlag er aðeins að foreldrar geta nýtt ferðina í leikskólann sem þjónar sem tengiliðurinn. Auðvitað eru kennararnir okkar hvorki að elda mat né þvo þvott – við vinnum með börnum eins og vera ber.“
Frétt mbl.is: Hjallastefnan byrjar með þvottaþjónustu
Nichole sagði einnig að með þessu væri Hjallastefnan hugsanlega að ná sér í viðskiptavini. Margrét segir það misskilning að sama skapi. Enginn skortur sé á viðskiptavinum. Markmiðið sé einungis að reyna að létta barnafjölskyldum lífið.
„Við erum með hundruð barna á biðlistum og um tvö þúsund börn í skólunum okkar á degi hverjum. Þess vegna viljum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að minnka álag á barnafjölskyldur – því þá verður líf barnanna betra. Einfaldlega hugsjón okkar að skapa betri heim fyrir börn.“