Hvetja þingmenn til að samþykkja áfengisfrumvarpið

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur ítrekað stuðning sinn við frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á áfengi og fagnar sérstaklega áformum um að heimila auglýsingar á áfengi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS. Þar segir m.a. að núverandi einokunarfyrirkomulag sé úrelt en stjórnin segir andstæðinga málsins hafa gert hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að það fái lýðræðislega afgreiðslu.

Tilkynning SUS í heild:

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna ítrekar stuðning sinn við nýframlagt frumvarp þingmanna fjögurra flokka um að afnema einkasölu ríkisins á áfengi og hvetur þingmenn til þess að greiða atkvæði með því og stíga þannig mikilvægt skref í átt að auknu viðskiptafrelsi.

Öll rök hníga að því að slíkt skref verði stigið. Núverandi einokunarfyrirkomulag er löngu úrelt og í öllu falli undarlegt í ljósi þess að í flestum ríkjum sem við viljum bera okkur saman við þykir ekkert sjálfsagðara en að almenningur geti keypt áfengi af einkaaðilum, hvort sem er í sérverslunum eða matvöruverslunum. Hér á landi er einkaaðilum treyst fyrir sölu á nánast öllum neysluvörum sem og ýmsum skaðlegum vörum á borð við tóbak, eiturefni og vopn. Engin haldbær rök eru fyrir því að önnur lögmál gildi um sölu og afhendingu áfengis. Ungir sjálfstæðismenn árétta að það er ekki hlutverk ríkisvaldsins að reka smásöluverslanir.

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi margoft verið lagt fram á Alþingi á undanförnum árum, og það rætt þar fram og til baka, hefur aldrei verið greitt atkvæði um það. Andstæðingar þess hafa ítrekað beitt öllum brögðum til þess að koma í veg fyrir að málið fái þinglega meðferð. Í öðru orðinu fullyrða þeir að málið verði fellt en í hinu reyna þeir hvað sem þeir geta til þess að tefja fyrir lýðræðislegri afgreiðslu þess. Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn að rísa undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar og koma frumvarpinu í atkvæðagreiðslu.

Þá ber sérstaklega að fagna áformum, sem koma fram í frumvarpinu, um að heimila auglýsingar á áfengi. Þrátt fyrir meint auglýsingabann eru slíkar auglýsingar fyrir allra augum á degi hverjum. ÁTVR auglýsir til að mynda reglulega undir yfirskini forvarna, erlendir áfengisframleiðendur hafa greiðan aðgang að íslenskum neytendum á netinu, í fjölmiðlum og sjónvarpi og þá hefur það jafnframt tíðkast að íslenskir framleiðendur sneiði hjá banninu með því að auglýsa bjór undir yfirskyni léttöls. Bannið ber vott um algjöran tvískinnung stjórnvalda og er löngu orðið tímabært að endurskoða það frá grunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert