Í sérstakri umræði á Alþingi í dag óskaði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, eftir svörum frá Óttari Proppé heilbrigðisráðherra um framtíðarstefnu hans og ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.
Svandís sagði alla flokka hafa sett heilbrigðismálin í forgang fyrir kosningar í haust og nefndi að ríkisstjórnin segði í stefnuyfirlýsingu sinni að málin væru í forgangi. Þá nefndi hún að Óttarr hefði þegar fullyrt „í ræðu, riti og í ræðustól“ að hann muni ekki gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu á Íslandi.
Svandís sagði þó að hægt væri að gera „býsna miklar breytingar á núverandi kerfi innan gildandi laga,“ eins og sést hefði og nefndi þar sem dæmi einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
Svandís spurði Óttar þá hvað hann teldi að væru eðlileg framlög til heilbrigðiskerfisins og hvernig hlutföllin ættu að vera milli framlaga til opinbera kerfisins í samanburði við einkareknar stofnanir.
„Það hefur verið svo á undanförnum árum að opinber framlög til einkarekinnar þjónustu hafa vaxið mun meira en til opinberrar þjónustu. […] Þarna er alltaf um að ræða fjármögnun frá almenningi, sama hvert það rennur. Þó að það sé sett meira fé í heilbrigðisþjónustuna þýðir það ekki endilega að stutt sé við opinbera kerfið,“ sagði Svandís.
Óttarr sagði ríkisstjórnina nú vinna að 5 ára fjármálaáætlun og þar yrðu útgjaldaþörf og tekjuáætlun næstu ára skoðuð. Þá sagði hann erfitt að tala um nákvæmar upphæðir á meðan vinnan væri í gangi en að ætlunin væri að auka framlög í málaflokkinn.
„Ég hef samt verið dálítið efins um að ríghengja viðmiðið við ákveðna prósentu af landsframleiðslu vegna þess að landsframleiðsla skoppar upp og niður og við viljum heldur ekki festa okkur í fyrirframgefinn sparnað ef landsframleiðsla minnkar.“
Loks sagði Óttarr engar áætlanir á borði um að gera breytingar á því hlutfalli fjármagns sem fer til einkarekinna eða opinberra heilbrigðisstofnana.
„Ég hef ekki sérstaklega í huga eða langar til að gera stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu, nema til þess að styrkja það og styðja. Í dag er upp undir 30% af opinberu fjármagni, sem fer í heilbrigðisþjónustu, sem fer á einhvern hátt í rekstur sem er á vegum sjálfseignarstofnana sjálfstæðra sérfræðinga eða hvað og ég hef engar sérstakar áætlanir um að gera stórar breytingar þar um.“