Segir EES ekki duga lengur

Jóna Sólveig Elínardóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Viðreisnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) duga ekki lengur til þess að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Þetta er haft eftir Jónu Sólveigu Elínardóttur, formanni utanríkismálanefndar Alþingis og þingmanni Viðreisnar, á fréttavef bandaríska dagblaðsins Washington Times.

Stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í utanríkismálum kveður meðal annars á um að áfram verði byggt á EES-samningnum en þar segir: „Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.“

„Við þurfum að hafa stjórn á gjaldmiðlinum okkar sem býr við miklar sveiflur,“ er enn fremur haft eftir Jónu Sólveigu. Hún segir að innganga í Evrópusambandið þýddi að Ísland fengi háværari rödd á alþjóðavettvangi og varðandi fjármálastöðugleika.

Við núverandi aðstæður hafi Ísland ekkert um löggjöf frá Evrópusambandinu að segja sem landið þurfi að taka upp í gegnum EES-samninginn. „Eins og staðan er nú heyrist rödd okkar ekki og við höfum ekki sæti við borðið þegar endanlegar ákvarðanir eru teknar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert