Héraðsdómur Reykjaness staðfesti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um að vera valdur að dauða Birnu Brjánsdóttur. Heimilaði héraðsdómur 4 vikna gæsluvarðhald til viðbótar, en maðurinn var látinn laus úr einangrun í gær og er nú vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði.
Í dag eru sex vikur liðnar frá því að maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Jón H. B. Sorrason aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu hafa farið fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald og að héraðsdómur hafi samþykkt þá beiðni.
„Að þessu sinni var farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna vegna rökstudds gruns um svo alvarlegt brot,“ segir Jón. Slíkt sé gert í alvarlegum málum þar sem að almannahagsmunir krefjist þess að hinn grunaði sitji í gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans.
Lögregla og ákæruvaldið hefur nú sex vikur til að leggja fram ákæru á hendur manninum, eigin sá tímarammi að halda, en lögregla hefur 12 vikur frá því að sakborningur er fyrst dæmdur í gæsluvarhaldi.
Að sögn Jóns gengur rannsókn málsins ágætlega og kveðst hann bjartsýnn á að sá tímarammi haldi.
„Við stefnum að því að ljúka rannsókn fljótlega og þá verður málið sent saksóknara sem þarf að gefa út ákæru.“
Jón segir manninn enn ekki hafa játað að bera sök á dauða Birnu. Dómurinn meti það hins vegar svo að þau gögn sem lögregla hafi lagt fram í málinu dugi til að rökstuddur grunur leiki á að maðurinn beri ábyrgð á dauða Birnu og samþykki áframhaldandi gæsluvarðhald á þeim grundvelli. Lögregla telji sig þá alveg ótvírætt hafa fundið lífsýni sem tengja megi láti Birnu.
Spurður hvað standi enn út af í rannsókn málsins segir hann heilmargt enn standa út af og að afla þurfi fjölmargra gagna og upplýsinga. „Og það er bara verið að vinna í því.“