„Þetta gengur bara vel hjá okkur,“ segir Ómar Sverrisson, löndunarstjóri hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, í samtali við mbl.is en löndun stendur yfir á loðnufarmi úr nóta- og togveiðiskipinu Beiti NK sem kom til hafnar með metfarm eða um þrjú þúsund tonn.
Mest af loðnunni fer í bræðslu að sögn Ómars en um 300 tonn fara í vinnslu. „Þett verða nú rúmlega þrjú þúsund tonn miðað við lestarstöðuna á því sem er eftir. Við erum bara búnir að landa helmingnum núna. Við eigum eftir að vera að landa hérna fram að miðnætti.“
Loðnunni er dælt upp úr skipinu með dælum þess. „Við erum með krana hérna á bryggjunni en hann er bara ekki nógu stór fyrir þetta. Skipið er einfaldlega það stórt. Dekkið er til dæmis núna orðið hærra en rörið þar sem fiskurinn fer inn í húsið og það er samt í sex metra hæð.“
„En þetta gengur fínt svona. Bara þægilegt svona. Við löndum þá líka fiskinum öllum heilum. Það fer betur með hráefnið. Annars klipptist annar hver fiskur í sundur liggur við. Svona koma allir fiskanir heilir í land,“ segir Ómar.
Aðspurður segir hann Beiti NK fara strax til veiða aftur þegar löndun er lokið. Þá verði landað úr næsta skipi sem er Bjarni Ólafsson AK með um 1.900 tonn. Það fer allt í vinnslu. Von er á skipinu í kvöld og verður farið strax í að landa úr því þegar búið verður að tæma Beiti.