Sigmundur og Bjarni tókust á

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra, tókst á við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í dag, um málefni Seðlabankans og losun gjaldeyrishafta.

Vakti Sigmundur máls á því að við myndun ríkisstjórnarinnar hefðu málefni Seðlabanka Íslands verið flutt undir forsætisráðuneytið í stað fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

„Í svari við fyrirspurn frá vefmiðlinum Kjarnanum upplýsti hæstvirtur forsætisráðherra að það væri vegna þess að sjálfstæði Seðlabankans vegna, væri æskilegt að yfirstjórn hans, og samþykkt peninga- og gengisstefnu, sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins,“ sagði Sigmundur.

Bætti hann við að spurning sín væri:

„Hvenær uppgötvaði hæstvirtur forsætisráðherra það? Var það áður en hann tók við embætti fjármálaráðherra? Eða á meðan hann starfaði sem fjármálaráðherra? Og þegar slíkir hagsmunaárekstrar komu upp, í hans tíð sem fjármálaráðherra, hagsmunir hvors urðu þá ofan á, fjármálaráðuneytisins eða Seðlabankans?“

Á að hverfa frá stefnunni?

Um leið sagðist Sigmundur vilja spyrja um það sem hann sagði stórt og mikið hagsmunamál, þar sem kynnu að vera ólíkar áherslur á milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, og svo forsætisráðuneytisins.

„Það er hvort hverfa eigi frá þeirri stefnu, sem mörkuð var og fylgt eftir á síðasta kjörtímabili, varðandi losun hafta og uppgjör við kröfuhafa.“

Sagðist hann spyrja vegna frétta um það, að til standi að semja við kröfuhafa sem ekki vildu taka þátt í útboðinu sem fram fór á síðasta ári, um að hleypa þeim út fyrr en áformað var.

„Eins og hæstvirtur ráðherra man, var það grunnforsenda útboðsins, sem reyndar hefði átt að fara fram miklu fyrr, að allir væru meðvitaðir um það, að þeir sem ekki voru tilbúnir að taka þátt í því myndu sitja eftir. Færu síðastir út og hefðu þar af leiðandi hag af því að taka þátt í útboðinu.

Er það semsagt stefnan núna, að hverfa frá þessari ákvörðun, og hver er afstaða forsætisráðuneytisins, Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins til þess?“

Sigmundur og Bjarni við stofnun ríkisstjórnar þeirra árið 2013.
Sigmundur og Bjarni við stofnun ríkisstjórnar þeirra árið 2013. mbl.is/Eggert

Sérfræðingar ráðnir í ráðuneytið

Bjarni tók þá til svara.

„Það er ágætt að nota Kjarnann sem heimild, en það er sjálfsagt að bæta við, þegar spurt er um rökin fyrir því að færa Seðlabankann til forsætisráðuneytisins.

Vissulega eru þetta ein rökin, með tiltölulega nýrri lagabreytingu þá sá maður að það getur haft þýðingu fyrir sjálfstæði Seðlabankans að eiga ekki um of undir í fjármálaráðuneytinu, í fjárhagslegum samskiptum þessara tveggja aðila.“

Sagðist hann meðal annars vísa til þess, að við vissar aðstæður gæti Seðlabankinn kallað eftir framlagi frá ríkinu.

Þá hefði hann í hyggju að „lyfta upp því hlutverki forsætisráðuneytisins að hafa með hagstjórn almennt að gera“ og ráða til starfa í ráðuneytinu sérfræðinga til að sinna því.

Bjarni sagður efast um Kjarnann

Sigmundur steig í pontu að nýju. Sagði hann að svo virtist sem Bjarni hefði efasemdir um Kjarnann sem heimild.

„En ég var hér bara að vísa til svars hans sjálfs, til þess vefmiðils, og mér finnst svosem að svar hæstvirts forsætisráðherra hér bæti nú ekki miklu við það.“

Beindi hann þá orðum sínum að forseta Alþingis, og sagði Bjarna hafa í engu svarað fyrirspurn sinni, um afstöðu til þess með hvaða hætti skyldi haldið áfram með áætlun síðustu ríkisstjórnar.

Bjarni sagði þá, að engu yrði fórnað til þess að gera aflandskrónueigendum mögulegt að komast út úr landinu með eignir sínar, „ef það þýðir á einhvern hátt, að eftir sitji allur almenningur, fyrirtækin í þessu landi, sveitarstjórnir og aðrir, lífeyrissjóðir, í höftum með einhvern vanda.“

Engin stefnubreyting hefði orðið á þessu sjónarmiði, og að ekki kæmi til greina að skapa einhvers konar lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki fæli í sér að höftin losnuðu um leið af almenningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert