Hefði gert ýmislegt öðruvísi

Í viðtalinu var Sigmundur Davíð, þá forsætisráðherra, spurður út í …
Í viðtalinu var Sigmundur Davíð, þá forsætisráðherra, spurður út í félag að nafni Wintris. Skjáskot/RÚV

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist geta skrifað langan lista yfir þá hluti sem hann hefði gert öðruvísi, hefði hann vitað hvernig hlutirnir myndu þróast eftir Kastljósviðtalið fræga en um næstu helgi verður liðið ár frá því að viðtalið var tekið upp.

Þetta sagði Sigmundur Davíð í viðtali við Heimi Má Pétursson í Víglínunni í dag þar sem Heimir og Sigmundur ræddu Kastljósþáttinn og afleiðingar hans. Eins og þekkt er orðið leiddi viðtalið til þess að Sigmundur sagði af sér sem forsætisráðherra og boðað var til kosninga um hálfu ári áður en kjörtímabilinu átti að ljúka.

Sigmundur Davíð sagði að ef allt sem á eftir kom hafi raunverulega snúist um viðtalið og viðbrögð hans, væri það gott dæmi um þær breytingar sem hafa orðið á stjórnmálaumhverfinu á Íslandi og víðar. Stjórnmál snúist þá í dag um ímynd, frekar en staðreyndir.

Viðtal SVT og Reykjavík Media við Sigmund Davíð leiddi til …
Viðtal SVT og Reykjavík Media við Sigmund Davíð leiddi til afsagnar hans úr forsætisráðherrastól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá gagnrýndi Sigmundur einnig þá sem stóðu að viðtalinu og sagði það að miklu leyti hafa snúist um að „rugla viðmælandann í ríminu“ og spyrja spurninga til að fá svör sem væru svo klippt saman sem svör við öðrum spurningum.

Að sögn Sigmundar Davíðs tók hann á sínum tíma ákvörðun um að segja af sér sem forsætisráðherra þar sem hann mat það sem svo að það væri „mikilvægast af öllu“ að ríkisstjórnin fengi svigrúm til að klára þau verkefni sem lægju fyrir.

„Ég var þeirrar skoðunar að það ætti að reyna að lágmarka tjónið.“

Gæti skrifað langan lista

Spurður um hvort hann hefði gert eitthvað öðruvísi, hefði hann vitað hvaða afleiðingar viðtalið myndi hafa, sagði Sigmundur að svo væri.

„Auðvitað væru það fjölmörg atriði, ég gæti skrifað langan lista um hluti sem eftir á maður myndi gera öðruvísi, vitandi hvernig hlutirnir þróuðust og hvað lá að baki.“

Hann hefði þá til dæmis greint frá viðtalinu og efni þess strax en þrjár vikur liðu milli þess sem viðtalið var tekið upp og þar til það var birt. Sigmundur segist í raun hafa skrifað bréf um efni viðtalsins sem hann hafi ætlað að senda fjölmiðlum en honum var ráðlagt að gera það ekki. Aðalatriðið væri að hann svaraði öllum spurningum og kæmi upplýsingum um Wintris og tengingu hans við fyrirtækið á framfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert