Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media hlaut í dag blaðamannaverðlaunin 2016 fyrir ítarlegar rannsóknir á þeim hluta Panamaskjalanna sem vörðuðu íslenska hagsmuni og umfjöllun, í samstarfi við aðra miðla, um mikil viðskipti í skattaskjólum.
Blaðamannaverðlaun BÍ voru veitt við hátíðlega athöfn í Tjarnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag og voru verðlaun veitt í fjórum flokkum. Á sama tíma voru veitt verðlaun fyrir myndir ársins ásamt því að árleg sýning Blaðaljósmyndarafélagsins á bestu myndum ársins 2016 var opnuð.
Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins hlaut Tryggvi Aðalbjörnsson hjá RÚV fyrir umfjöllun um brot Brúneggja ehf. gegn dýravernd og svik við neytendur og máttleysi eftirlitsstofnana til að takast á við brotin.
Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun ársins hlaut Sigrún Ósk Kristjánsdóttir á Stöð 2 fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum sem segir sögu þriggja ættleiddra kvenna og fjallar um árangursríka eftirgrennslan landa á milli um rætur þeirra.
Þá hlaut Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður á Stundinni, verðlaun fyrir viðtal ársins fyrir viðtal sitt við Berglindi Ósk Guðmundsdóttur sem segir sögu systur sinnar, Kristínar Gerðar, sem svipti sig lífi eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn og afleiðingar misnotkunar.