Samstarfið lá í loftinu allan tímann

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, flutti ræðu á flokksráðsfundi VG …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, flutti ræðu á flokksráðsfundi VG í Hlégarði í Mosfellsbæ í morgun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að í stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka sem hún leiddi hafi mest borið á milli VG og Viðreisnar. Reynt hafi verið að fá framsóknarmenn inn í viðræðurnar eftir að Viðreisn sagðist ekki hafa sannfæringu fyrir því að halda viðræðunum áfram. „Það gekk hins vegar ekki upp, meðal annars vegna þess að bandalag Bjartrar framtíðar og Viðreisnar varð ekki sundur slitið.“

Þá ræddi VG við sjálfstæðismenn en of langt var á milli flokkanna málefnalega hvað varðaði tekjur og útgjöld. „Aftur var reynt við fimm flokka viðræður en segja má að niðurstaðan sem varð: Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi legið í loftinu allan tímann.“

Þetta sagði Katrín í ræðu sinni á flokksráðsfundi Vinstri grænna í Hlégarði í Mosfellsbæ í morgun. Þar sagði hún að slitnað hafi upp úr viðræðunum vegna þess að VG vildi ekki fara í ríkisstjórn nema vera viss um að ná fram árangri í að byggja upp innviði samfélagsins: Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra og öryrkja, samgöngur og fjarskipti. 

Vildu skattleggja fjármagnið

Katrín segir að vinstri græn hafi verið tilbúin til að afla þeirra tekna sem til þurfti. Það vildu þau gera með því að skattleggja fjármagnið, t.d. með auðlegðarskatti og hærri fjármagnstekjuskatti, m.a. með hærri veiðigjöldum og komugjöldum á ferðamenn. „Skýr sýn sem ekki náðist saman um til að mynda meirihluta,“ sagði Katrín.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ í …
Flokksráðsfundur Vinstri grænna fer fram í Hlégarði í Mosfellsbæ í dag. mbl.is/Ófeigur

Katrín sagði að margt kallaði á endurskoðun skiptingu gæðanna, hvernig tekna er aflað og hvernig innviðir eru byggðir upp. Hún sagði að vaxandi ójöfnuð á Vesturlöndum megi beinlínis rekja til stjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar þar sem skattar á hina ríkari hafa verið lækkaðir.

Hún sagði þessi áhrif sjást hér á landi þegar auðlegðarskattur var látinn falla niður en að á sama tíma hafi skattur á mat verið hækkaður. Sú hækkun bitnaði fyrst og fremst á tekjulægri hópum. Þá hafi veiðigjöld á útgerðina einnig verið lækkuð á sama tíma og arðgreiðslur eigenda hennar hafi hækkað. „Að vísu voru bankarnir skattlagðir – en þeim fjármunum var varið í svokallaða skuldaleiðréttingu sem gagnaðist fyrst og fremst hinum efnameiri og tekjuhærri – sem þannig fengu hlutdeild í hagnaði bankanna með aðstoð hægristjórnarinnar.“

Ekki vilji til að tryggja hagsmuni almennings

Á sama tíma hafi verið ráðist í aukinn einkarekstur að sögn Katrínar sem nefndi sem dæmi breytt rekstrarform Iðnskólans í Hafnarfirði og útboð á rekstri þriggja nýrra heilsugæslustöðva.

Katrín sagði að það sama mætti segja um fjármálakerfið. Nú þegar tækifæri væri til að endurskipuleggja það og aðskilja viðskiptabanka og fjármálastarfsemi sé ætlunin að selja „nánast allt íslenska bankakerfið“.

Hún sagði enga framtíðarsýn liggja fyrir um hvernig íslenska fjármálakerfið eigi að vera. 

„Það er ekki pólitískur vilji til að nýta tækifærið og tryggja þannig hagsmuni almennings. Um þetta snýst vinstri og hægri. Að tryggja almannahagsmuni, skattleggja fjármagnið en ekki fólkið, tryggja samfélagslegan rekstur á grunnstofnunum samfélagsins, heilbrigðisstofnana, skóla, öldrunarstofnana, vegakerfisins og svo framvegis. Um það er vinstrið: Það snýst um almannahagsmuni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert