Íbúar í Berufirði hyggjast loka hringveginum um fjörðinn eftir hádegi á morgun, sunnudag, til að mótmæla því að horfið sé frá uppbyggingu vegar um fjörðinn.
Í frétt Austurfréttar um málið er haft eftir bónda á Karlsstöðum í Berufirði að kosningabaráttan hafi fjallað mikið um uppbyggingu innviða. Síðan hafi allt verið svikið. „Það eru allir sótbrjálaðir,“ segir bóndinn, Berglind Häsler, í samtali við Austurfrétt. Hún segir að vegurinn í dag sé eins og í vanþróuðu ríki.
Boðað hefur verið til íbúafundar á Djúpavogi milli klukkan 11 og 13 á sunnudag til að kynna sameiningarviðræður Djúpavogshrepps, Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Til mótmælanna er boðað strax eftir þann fund.
„Berfirðingar og allir sem vilja sýna samstöðu í þessu máli mæta í Berufjörðinn upp úr klukkan eitt. Við ætlum að stöðva umferðina þar. Þetta er ákall til stjórnvalda um að endurskoða ákvörðunina og byrja framkvæmdir hið snarasta,“ segir í frétt Austurfréttar um málið.
Skera þarf niður um 10 milljarða af framkvæmdum í samgöngumálum sem áætlaðar voru í ár vegna þess að fjárlög ársins fylgdu ekki samgönguáætlun.
Auk vegar um Teigsskóg er nýrri brú á Hornafjarðarfljót frestað, Dynjandisheiði og lagfæringum á hringvegi í Berufirði, svo örfá dæmi séu tekin.
Ungt Austurland, samtök ungra Austfirðinga á aldrinum 18-40 ára, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem boðaður niðurskurður á samgönguáætlun er harðlega gagnrýnd.
„Miðstjórn félagasamtakanna Ungt Austurland lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með boðaðan niðurskurð á samgönguáætlun. Niðurskurðurinn setur út af borðinu framkvæmdir við lagningu bundins slitlags í Berufjarðarbotni og á Borgarfjarðarvegi,“ segir í ályktuninni sem samþykkt var af miðstjórn samtakanna.
Það segir jafnframt að ungir Austfirðingar neiti „að láta hafa sig að fíflum eina ferða enn“ og er þess krafist að staðið verði við gefin loforð en þingið samþykkti rétt fyrir kosningar samgönguáætlun þar sem úrbótum á vegum í Berufjarðarbotni og Borgarfjarðarvegi var lofað.