Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist þeirrar skoðunar að vel sé hægt að færa verslun með áfengi í hendur einkaaðila. Vissulega séu mörg mál sem skipti þjóðina miklu meira máli en áfengisfrumvarpið sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi en það komi ekki í veg fyrir að hægt sé að ræða málið.
Bjarni er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Hér að neðan fer kafli úr viðtalinu þar sem hann er spurður um áfengisfrumvarpið.
Hvernig er það með ykkur sjálfstæðismenn, Bjarni, eruð þið með áfengi á heilanum? Er ekkert við stjórn þessa litla og fámenna lands okkar sem skiptir meira máli en það hvort það er ríkið eða einkaaðili, kaupmaðurinn, sem selur landanum brennivín, bjór og létt vín?
„Jú, það er margt sem skiptir miklu meira máli en það en það kemur ekki í veg fyrir að það sé hægt að ræða þetta mál. Það er nú flutt af þingmönnum úr nokkrum flokkum, það var rætt nokkuð í þinginu og er nú komið til nefndar. Mér finnst sjálfsagt að það fái umræðu og meðferð í þinginu. Það er eðlilegt að það séu átök um þetta mál, en þetta er ekki smámál, eins og þú gefur til kynna. Málið snýst um það hvort mikilvægt sé að ríkið sjái um þessa tegund smásöluverslunar eða hvort við getum með lagaumgjörð treyst einkaaðilum til þess að gera það.
Ég er þeirrar skoðunar að við getum vel fært þessa verslun í hendur einkaaðila og um leið búið þannig með lögum og reglum að starfseminni að gætt sé að þeim sjónarmiðum sem augljóslega þarf að gæta að þegar áfengi er annars vegar.“
– Ertu undrandi á því að þjóðin sé hneyksluð á því að einmitt þetta mál sé enn eina ferðina, ég veit ekki í hvað skipti, forgangsmál Sjálfstæðisflokksins? Mál sem afgerandi meirihluti þjóðarinnar er alfarið á móti?
„Þetta mál er flutt af þingmönnum nokkurra flokka og það er ekki hægt að halda því fram að þetta sé forgangsmál okkar enda hefði ég þá tekið það upp á mína arma og flutt sem stjórnarfrumvarp.
En það kemur ekki á óvart að málið sé umdeilt. Mér finnst mikils misskilnings gæta í umræðum um efnisatriði málsins. Mér finnst það til dæmis ekki hafa komist vel til skila að með frumvarpinu er verið að færa það í vald sveitarstjórna að ákveða hvort áfengisverslanir verði innan marka viðkomandi sveitarfélags, hversu margar þær verði og með hvaða hætti sú starfsemi verði rekin.“