Ökumaður bifreiðarinnar sem valt út af Grindavíkurvegi í nótt er látinn. Kona á fimmtugsaldri var ein í bílnum en að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er ekki vitað nánar um tildrög slyssins önnur en þau að konan virðist hafa misst stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann valt út af veginum.
Lögreglunni barst tilkynning kl. 01:58 í nótt um umferðarslys á Grindavíkurvegi um 1,7 km norðan við mót Norðurljósavegar. Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og naut hún aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við vettvangsrannsóknina. Þá kom fulltrúi frá rannsóknarnefnd samgönguslysa á vettvang.
Loka þurfti veginum um stund á meðan lögregla og sjúkraflutningamenn athöfnuðu sig á vettvangi.